Síðustu orð Khashoggis: „Ég get ekki andað“

Jamal Khashoggi var myrtur 3. október. Hann virðist hafa áttað ...
Jamal Khashoggi var myrtur 3. október. Hann virðist hafa áttað sig á að eitthvað var að um leið og hann kom inn í sendiráðið. AFP

„Ég get ekki andað.“ Þetta voru síðustu orð sádi-arabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi er hann var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í byrjun októbermánaðar, að því er fréttastofa CNN hefur eftir heimildamanni.

Heimildamaðurinn, sem hefur lesið eftirrit af hljóðupptökum af síðustu stundum Khashoggi, segir augljóst að morðið hafi ekki verið yfirheyrsla sem fór úr böndunum heldur sé um að ræða skiplagða áætlun um að myrða blaðamanninn.

Segir heimildamaðurinn að heyra megi Khashoggi veita hópi manna, sem sé staðráðinn í að drepa hann, mótspyrnu. „Ég get ekki andað,“ segir Khashoggi. „Ég get ekki andað. Ég get ekki andað.“

Þá heyrist á hljóðupptökunni er lík Khashoggis er sundurlimað með sög og eins heyrist er meintum gerendum er ráðlagt að hlusta á tónlist til að útiloka hljóðið.

CNN hefur þá eftir heimildamanninum að á upptökunni megi einnig heyra gerendurna hringja nokkur símtöl og upplýsa viðmælendur sína um gang mála.

Samræmist lýsingu Haspel 

Tyrknesk yfirvöld telja þau símtöl hafa verið til sádi-arabískra ráðamanna, en tyrknesk stjórnvöld hafa sakað sádi-arabíska ráðamenn og þá sérstaklega Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, um að hafa fyrirskipað morðið. Yf­ir­völd í Sádi-Ar­ab­íu hafa ákært ell­efu manns fyr­ir morðið en þver­taka fyr­ir að krón­prins­inn hafi nokkuð með það að gera.

Hlutar þeirra upplýsinga sem fram koma á hljóðupptökunum hafa komið fram áður, en CNN segir eftirritunina ítarlegustu lýsingu á morðinu á Khashoggi sem birt hafi verið til þessa. Birting eftirritunarinnar sé líkleg til að auka þrýsting á Donald Trump Bandaríkjaforseta og stjórn hans, sem hefur til þessa reynt að segja ekkert tengja krónprinsinn við morðið og hafa reynt að draga fram þá mynd að málið snúist um að styðja eða skera á tengsl við helsta bandamann Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum.

Bandaríska leyniþjónustan CIA hefur komist að þeirri niðurstöðu að krónprinsinn hafi fyrirskipað morðið og er þar á öndverðum meiði við forsetann, sem segir mögulega aðild bin Salmans að málinu líklega aldrei skýrast.

CNN hefur eftir starfsmanni eins þeirra öldungadeildaþingmanna sem Gina Haspel forstjóri CIA hefur upplýst um málið að eftirritið samræmist þeim upplýsingum sem komið hafi fram á fundinum með Haspel.

Áttar sig strax á að eitthvað er að

Eftirritun upptökunnar hefst á þeirri stundu er Khashoggi kemur inn á ræðismannsskrifstofuna, en þangað kom hann til að ganga frá pappírum vegna fyrirhugaðs hjónabands síns og tyrkneskrar unnustu sinnar, Hatice Cengiz.

Heimildamaður CNN segir Khashoggi hins vegar virðast átta sig á því nær samstundis að ekki er allt eins og það á að vera. Er Khashoggi sagður hafa þekkt einn mannanna sem tekur á móti honum þar og spyr hann hvað viðkomandi sé að gera þar.

Maðurinn er sagður vera Maher Abdulaziz Mutreb, fyrrverandi sádi-arabískur diplómati og leyniþjónustumaður sem vann fyrir bin Salman. „Þú ert að koma til baka með okkur,“ segir Mutreb. „Ég get það ekki,“ svarar Khashoggi. „Það bíður mín fólk fyrir utan.“

Cengiz beið hans fyrir utan ræðismannsskrifstofuna og átti að láta vita ef hann kæmi ekki út aftur.

Án nokkurra frekari samræðna virðast nokkrir menn nú ráðast á Khashoggi, sem á í kjölfarið erfitt með að ná andanum. Segir heimildamaður CNN Khashoggi heyrast nokkrum sinnum í gegnum hávaðann lýsa því að hann nái ekki andanum.

Enginn bregst hins vegar við og eru síðustu orð hans: „Ég get ekki andað.“

„Setjið á ykkur heyrnartól eða hlustið á tónlist eins og ég“

Rödd Salah Muhammad al-Tubaiqi, yfirmanns réttarmeinadeildar sádi-arabíska innanríkisráðuneytisins, er einnig greinanleg á upptökunni.

Hávaði heldur áfram og af eftirritinu er ljóst að Khashoggi er ekki dáinn enn, því heyra má óp og andköf og svo heyrist hljóð í söginni og eins heyrist klippihljóð, en ekki er tekið nákvæmlega fram hvenær Khashoggi er talinn hafa látist.

Al-Tubaiqi heyrist ráðleggja þeim sem í herberginu hvernig þeir geti gert sér auðveldara að takast á við sundurlimunina. „Setjið á ykkur heyrnartól eða hlustið á tónlist eins og ég,“ segir hann.

Mutreb heyrist þá hringja þrjú símtöl þar sem hann virðist lýsa því hvað sé að gerast. „Segðu þínum manni að við erum búnir að þessu. Þessu er lokið.“ Segir heimildamaður CNN að menn telji orðið „þinn maður“ vísa þar til einhvers yfirmanns og er talið að Mutreb hafi verið að ræða við Saud al-Qahtani, nánasta ráðgjafa krónprinsins.

Sádi-arabísk yfirvöld greindu frá því eftir að þau viðurkenndu að Khashoggi hefði verið myrtur að al-Qahtani hefði verið rekinn sem fjölmiðlafulltrúi bin Salmans.

Segir CNN að þótt vissulega heyrist aðeins rödd Mutreb í símtölunum, og því ekki hægt að vita fyllilega um hvað samræðurnar snerust, sé ekkert sem bendi til þess að hann sé að lýsa þar aðgerð sem hafi farið úrskeiðis.

mbl.is
Vantar gæslu fyrir kisu/kisann?
www.kattholt.is rekur hótel fyrir kisu/kisann. kattholt@kattholt.is // s;567 ...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Nudd Nudd Nudd
Relaxing Massage Down Town Reykjavik, S. 7660348, Alina...
Bókhaldsþjónusta
Skattframtöl, bókhald, ársreikningar, vsk uppgjör & launauppgjör, stofnun félaga...