Þarf undanþágu til að hitta dauðvona son

Feðgarnir Abdullah og Ali Hassan á spítalanum í Oakland í …
Feðgarnir Abdullah og Ali Hassan á spítalanum í Oakland í Kaliforníu. Ljósmynd/American-Islamic Council

Jemensk kona hefur ekki fengið að heimsækja dauðvona son sinn til Kaliforníu í Bandaríkjunum, þar sem bandarísk yfirvöld hafa lagt bann við því að hún og aðrir jemenskir ríkisborgarar fái að ferðast til landsins. Beiðnum hennar og fjölskyldu hennar um undanþágu frá ferðabanninu hefur ekki verið svarað.

Tveggja ára sonur hennar, Abdullah Hassan, fæddist með heilasjúkdóm sem mun draga hann til dauða samkvæmt læknum í borginni Oakland í Kaliforníu þar sem drengurinn dvelur ásamt föður sínum, en báðir eru þeir bandarískir ríkisborgarar.

Ali Hassan, faðir drengsins, sagði í samtali við San Francisco Chronicle í gær að eiginkona hans, Shaima Swileh, vilji einungis fá tækifæri til þess að halda í hönd sonar síns í eitt augnablik áður en slökkt verður á öndunarvélinni, sem heldur honum á lífi.

Hann segir að að eiginkona sín sé miður sín yfir því geta ekki verið hjá syni sínum er hann liggur banaleguna, en Hassan ferðaðist með drenginn til Bandaríkjanna fyrr á árinu til þess að hann gæti komist undir læknishendur. Þá vissu hjónin ekki hve alvarlegt ástand drengsins var, né að mögulega ætti móðir hans á hættu að sjá hann aldrei aftur á lífi.

Að sögn fjölskyldunnar hefur móðir drengsins ekki fengið undanþágu frá ferðabanni Trump-stjórnarinnar til þess að koma og situr hún því föst í Egyptalandi. Þau ætla að reyna sitt besta til þess að Swileh nái að kveðja son sinn í hinsta sinn.

„Hún grætur á hverjum degi,“ segir Fawzi Hassan, tengdafaðir hennar. „Við verðum að leyfa henni að sjá son sinn í síðasta skipti. Leyfa henni að halda á honum í alla vega mínútu. Hún mun aldrei sjá hann aftur.“

Ferðabannið svokallaða, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti upphaflega til sögunnar í janúar árið 2017, kemur í veg fyrir að fólk frá Jemen, Íran, Líbíu, Sómalíu og Sýrlandi fái að ferðast til Bandaríkjanna.

Hægt er að sækja um undanþágur frá banninu en enn sem komið er hafa fáar verið veittar og hefur San Francisco Chronicle eftir mannréttindalögfræðingi að undanþágur séu einungis veittar í um það bil 2% tilfella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert