Kafbátur Madsen eyðilagður

Kim Wall og Peter Madsen um borð í Nautilus daginn …
Kim Wall og Peter Madsen um borð í Nautilus daginn örlagaríka, 10. ágúst 2017. AFP

Kafbátur danska uppfinningamannsins Peter Madsen, UC3 Nautilus, hefur verið fargað. Báturinn var tekinn í sundur fyrir skömmu og brotunum fargað. Frá þessu greinir Brian Belling hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn í samtali við Danska ríkisútvarpið.

„Það er rétt, hann er á bak og burt. Hann var tekinn í sundur og fargað á staðnum þar sem hann hefur verið geymdur,“ segir Belling.

Madsen var fyrr á árinu dæmd­ur í lífstíðarfang­elsi í fyr­ir morðið á sænsku blaðakon­unni Kim Wall. Kim Wall var þrítug, sænsk blaðakona sem hafði hug á að skrifa um geim­ferðar­hug­mynd­ir Mad­sens. Í því skyni sigldi hún með hon­um til hafs á kaf­bátn­um síðdeg­is þann 10. ág­úst á síðasta ári.

Morg­un­inn eft­ir sökk kaf­bát­ur­inn og Madsen var bjargað af sjófar­end­um í fló­an­um. Hann minnt­ist ekki einu orði á Wall. Hann kom í land og ræddi þá stutt­lega við fjöl­miðlamenn. Enn benti ekk­ert í máli hans til ann­ars en að hann hefði verið einn á ferð í bátn­um. Hann var hins veg­ar fljót­lega hand­tek­inn þar sem þegar hafði verið lýst eft­ir Wall.

Madsen sagði bát­inn hafa bilað og sokkið en rann­sókn lög­reglu sýndi að það hefði verið vilja­verk. Ell­efu dög­um eft­ir að Wall hvarf fóru lík­ams­leif­ar henn­ar að finn­ast og fljót­lega varð ljóst að lík henn­ar hafði verið brytjað í sund­ur.  

mbl.is