Samræma aðgerðir í Sýrlandi

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Rússar og Tyrkir hafa ákveðið að samræma aðgerðir herliða sinna á jörðu niðri í Sýrlandi eftir að Bandaríkin tilkynntu óvænt að þau ætli að draga her sinn til baka frá landinu.

„Auðvitað tökum við mið af nýjum kringumstæðum vegna ákvörðunar bandaríska hersins um að draga sig til baka,“ sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, eftir viðræður við Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, í Moskvu.

„Samkomulag hefur náðst á milli landanna tveggja um að samræma aðgerðir sínar á jörðu niðri í Sýrlandi vegna nýrra aðstæðna með það að markmiði að uppræta hryðjuverkaógn í Sýrlandi.“

Cavusoglu staðfesti þetta og bætti við að þeir hafi einnig rætt um að aðstoða flóttamenn við að komast aftur heim til sín.

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi óvænt frá því í síðustu viku að hann ætlaði að draga alla tvö þúsund hermenn sína frá Sýrlandi.

Mevlut Cavusoglu.
Mevlut Cavusoglu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert