Fordæma „farsakenndar“ kosningar

Kjósendur í biðröð fyrir utan kjörstað í höfuðborginni Dhaka í …
Kjósendur í biðröð fyrir utan kjörstað í höfuðborginni Dhaka í dag. AFP

Stjórnarandstaðan í Bangladess fordæmir framkvæmd „farsakenndra“ kosninga sem fram fóru í landinu í dag og krefst þess að kosið verði á ný. Fyrstu tölur benda til þess að forsætisráðherrann Sheikh Hasina hafi unnið stórsigur, en hún og flokkur hennar, Awami League, hafa haft tögl og haldir í ríkinu frá árinu 2009.

BBC greinir frá þessu og sömuleiðis alls konar grunsemdum um að rangt hafi verið haft við í kosningunum í Bangladess í gær. Fréttaritari BBC í landinu sá til dæmis troðfulla kjörkassa í talningarmiðstöð í borginni Chittagong í morgun, áður en kjörstaðir borgarinnar höfðu verið opnaðir.

BBC segir að í þeirri talningarmiðstöð og raunar fleirum, í þessari næstfjölmennustu borg landsins, hafi einungis verið viðstaddir kosningaeftirlitsmenn frá stjórnmálaflokki forsætisráðherrans, en engum stjórnarandstöðuflokkum.

Forsætisráðherrann Sheikh Hasina (t.h.) greiðir atkvæði í dag.
Forsætisráðherrann Sheikh Hasina (t.h.) greiðir atkvæði í dag. AFP

28 frambjóðendur frá helstu stjórnarandstöðuflokkum tilkynntu í dag að þeir hygðust draga framboð sitt til baka, vegna meints kosningasvindls.

Þá mun kosningaráð landsins hafa greint fréttastofu Reuters frá því að ásakanir um svindl og svínarí við framkvæmd kosninganna hefðu borist úr öllum landshornum og að þær yrðu rannsakaðar.

Mikið ofbeldi hefur verið í landinu samfara framkvæmd kosninganna og hafa að minnsta kosti sautján látist í dag, samkvæmt frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert