Indverskir hermenn felldir

Rúta sem skemmdist í árásinni sést hér flutt af vettvangi.
Rúta sem skemmdist í árásinni sést hér flutt af vettvangi. AFP

Að minnsta kosti 34 indverskir hermenn féllu í dag þegar sprengjuárás var gerð á bílalest hermannanna í indverska hluta Kashmir-héraðs.

Samkvæmt frétt BBC keyrði bíll, fullur af sprengiefni, á rútur hermanna um 20 kílómetra fyrir utan borgina Srinagar.

Jaish-e Mohammad, samtök herskárra íslamista, hafa lýst yfir ábyrgð á sjálfsmorðsárásinni.

Árásin í dag er sú mannskæðasta sem beinist gegn indverskum hermönnum í Kashmir-héraði í áraraðir, eða frá árinu 2002.

Lögreglan segir að tvær rútur séu mjög illa farnar eftir sprenginguna og þá séu aðrar skemmdar. Ekki er vitað hve margir særðust en 44 hermenn voru um borð í rútunum.

Tala látinna gæti hækkað vegna þess að nokkrir hermenn liggja þungt haldnir eftir árásina.

Indland og Pakistan sækjast bæði eftir fullum yfirráðum yfir Kashmir-héraði, sem er skipt á milli landanna eftir sjálfstæði frá Bretum 1947. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert