Misstu af flugvélinni sem fórst

Tveir karlmenn segjast hafa rétt misst af farþegaþotu Ethiopian Airlines sem fórst í gær skömmu eftir flugtak frá flugvellinum í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, með þeim afleiðingum að 157 manns létu lífið samkvæmt frétt BBC.

Grikkinn Antonis Mavropoulos segist hafa verið tvær mínútur frá því að ná fluginu. Um tengiflug hafi verið að ræða og hann haft um hálftíma til þess að komast á milli flugvéla, en starfsmaður fyrirtækis hans hafi klúðrað því. Hann hafi í fyrstu orðið reiður en nú líti hann hins vegar svo á að hann eigi starfsmanninum lífið að launa.

Missti marga vini í slysinu

Mavropoulos segist hafa séð síðustu farþegana fara um borð í farþegaþotuna. Honum var hins vegar bannað að fara um borð þar sem hann væri of seinn og var honum síðan komið í aðra flugvél á leið til Naíróbí, höfuðborgar Kenía.

Lögreglan yfirheyrði Mavropoulos vegna málsins þegar hann kom til Naíróbí. Hann hafði síðan samband við ættingja sína til þess að láta vita af því að hann væri á lífi. Mavropoulos var á leið á umhverfisráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí eins og margir af þeim sem fórust með farþegaþotunni og missti hann marga vini.

Faðir Khalids taldi hann látinn

Hliðstæða sögu er að segja af Ahmed Khalid frá borginni Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Flugvélin sem fórst var einnig tengiflugið hans en hann missti hins vegar af henni vegna þess að fyrri flugvélinni seinkaði og fór því með annarri vél.

Þegar faðir Khalids frétti af flugslysinu hélt hann að sonur hans væri látinn en andaði léttar þegar Khalid hafði samband og sagðist vera enn í Addis Ababa.

Brak úr farþegaþotunni sem fórst um helgina skömmu eftir flugtak …
Brak úr farþegaþotunni sem fórst um helgina skömmu eftir flugtak frá Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert