Ástralskur vígamaður dæmdur í fangelsi

Neil Prakash.
Neil Prakash. Skjáskot af BBC

Tyrkneskur dómstóll dæmdi í dag fyrrverandi ástralskan rappara í sjö og hálfs árs fangelsi en hann starfaði með vígamönnum Ríkis Íslams í Sýrlandi áður en hann var handsamaður í Tyrklandi árið 2016.

Neil Prakash var hand­tek­inn þegar hann reyndi að kom­ast til Tyrk­lands frá Sýr­landi með falsaða papp­íra í nóvember 2016.

Prakash, sem einnig er þekkt­ur und­ir nafn­inu Khaled al-Cam­bodi, hef­ur verið tengd­ur við hryðju­verka­áform í Ástr­al­íu og komið fram í áróðurs­mynd­skeiðum. Hann er sakaður um að hafa fengið fjöl­marga Ástr­ala, karla, kon­ur og börn, til þess að ganga til liðs við hryðju­verka­sam­tök.

Prakash sagði við réttarhöldin að hann hefði hlotið þjálfun hjá vígamönnum í Raqa í Sýrlandi. Enn fremur sagðist Prakash sjá eftir því að hafa gengið til liðs við Ríki Íslams þegar hann sá hver áform þeirra voru í raun og veru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert