Biður útfarargesti að klæðast í anda Harry Potters og Marvel

Blómahaf á staðnum þar sem Lyra McKee var skotin til …
Blómahaf á staðnum þar sem Lyra McKee var skotin til bana í Londonderry. AFP

Útför norðurírska blaðamannsins Lyru McKee fer fram í dag. McKee var skotin í höfuðið og til bana er til átaka kom milli hóps andófsmanna og lögreglu í borginni Londonderry í síðustu viku.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, verður viðstödd útförina.

Lyra McKee var 29 ára. Hún hafði m.a. í störfum sínum lagt áherslu á að fjalla um blóðdrifna sögu Norður-Írlands. Hópur lýðveldissinna, Nýi írski lýðveldisherinn (New IRA), hefur lýst yfir ábyrgð á dauða McKee en hefur beðist afsökunar og sagt skotið hafa verið ætlað lögreglunni. 

Reiðin kraumar enn

Drápið vakti upp sárar minningar um hin mannskæðu átök sem geisuðu á Norður-Írlandi í þrjá áratugi, oft kölluð Vandræðin eða The Troubles. Því tímabili lauk formlega með friðarsamkomulagi sem var undirritað árið 1998. Síðan þá hefur friður ríkt að mestu þó að enn komi reglulega til átaka milli þeirra sem vilja sameinað Írland og þeirra sem vilja Norður-Írland áfram í breska samveldinu. Átökin voru ekki og hafa ekki verið beinlínis af trúarlegum toga þó að flestir þeir sem styðji sameinað Írland (lýðveldissinnar) séu kaþólskrar trúar og þeir sem vilji halda sambandinu við Breta séu mótmælendatrúar. Sögulega séð hafa kaþólskir átt erfiðara uppdráttar á Norður-Írlandi, búið við meiri fátækt og aðskilnað, m.a. var þeim lengi vel haldið frá opinberum störfum og embættum.

Skrifstofa Theresu May tilkynnti í morgun að ráðherrann myndi mæta til útfararinnar. Sara Canning, unnusta McKee, segir að í útförinni, sem fram fer í St Anne-dómkirkjunni í Belfast, verði lífi og starfi blaðakonunnar fagnað. 

McKee byggði starfsframa sinn í kringum skrif um hin svokölluðu „vopnahlés börn“ - kynslóðina sem var að ná fullorðinsaldri árið 1998 er skrifað var undir friðarsamkomulagið sem kennt er við föstudaginn langa og batt enda á Vandræðin. Hún var einnig ástríðufullur málsvari LGBT-fólks og var á lista Forbes árið 2016 yfir þrjátíu áhrifamestu einstaklinga Evrópu undir þrítugu.

Lyra McKee var 29 ára og hafði vakið mikla athygli …
Lyra McKee var 29 ára og hafði vakið mikla athygli fyrir skrif sín um börn vopnahlésins, kynslóðina sem var að komast á fullorðinsár er skrifað var undir friðarsamkomulagið árið 1998. AFP

„Svo hjartahlý og saklaus, hún var góður hlustandi, gaf sér alltaf tíma fyrir alla,“ sagði fjölskylda hennar í yfirlýsingu. „Hún var greind og ákveðin kona sem hafði ástríðu fyrir samheldni, réttlæti og sannleikanum.“

Blaðamaðurinn og samstarfskona McKee, Susan McKay, sagði í samtali við BBC að McKee væri andstæða alls þess sem Nýi írski lýðveldisherinn stæði fyrir.

Canning hefur beðið alla þá sem ætla að mæta til útfarar unnustu sinnar að klæðast fötum í anda Harry Potter og Marvel-ofurhetjanna til minningar um McKee sem hafði dálæti á þessu tvennu.

Útförin hefst um klukkan 12 að íslenskum tíma í dag og verður athöfnin úr dómkirkjunni sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpi. Að henni lokinni verður minni athöfn fyrir nánustu vini og ættingja.

 Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands, ætlar að koma í útförina sem og forseti Írlands, Micael D. Higgins. Einnig er von á fulltrúum allra sex áhrifamestu stjórnmálaflokka Norður-Írlands sem sendu frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem þeir fordæmdu morðið. 

„Þetta var tilgangslaus og gagnslaus gjörningur sem ætlað var að eyðileggja það sem áunnist hefur á síðustu tuttugu árum og hefur notið stuðnings meirihluta almennings alls staðar,“ sagði í yfirlýsingunni.

Enn eru hópar á Norður-Írlandi sem vilja beita ofbeldi og …
Enn eru hópar á Norður-Írlandi sem vilja beita ofbeldi og vopnum til að ná sínu fram: Að Írland verði sameinað. AFP

Karen Bradley, ráðherra málefna Norður-Írlands í bresku ríkisstjórninni, sagði McKee hafa verið „unga og lífsglaða konu“ sem var holdgervingur hins nýja Norður-Írlands. Hún sagði að minning hennar myndi lifa og minna alla á að halda áfram að vinna að friði.

Fjölskylda McKee segist skilja hörð viðbrögð fólks í kjölfar morðsins en hvetur alla til að sýna stillingu og bregðast við með jákvæðni og von að vopni. „Svar Lyru hefði verið einfalt - eina leiðin til að sigrast á hatri og umburðarleysi er með kærleika, skilningi og góðvild.“

Í yfirlýsingu Nýja írska lýðveldishersins báðust liðsmenn „einlæglega afsökunar“ á dauða McKee og sögðu að hún hefði óviljandi verið skotin. Skotmarkið hefði verið lögreglan. Þessi klofningshópur hreyfingar lýðveldissinna vill sameinað Írland en hafnar þeim friðsamlegu leiðum sem farnar hafa verið í baráttunni undanfarin ár. 

Hópurinn hefur verið fordæmdur af öðrum leiðtogum lýðveldissinna. Mary Lou McDonald, formaður Sinn Fein hefur sagt hópinn örsmáan og einangraðan og að liðsmenn hans séu í raun „í stríði við sitt eigið samfélag“.

Sara Canning, unnusta Lyru McKee, ávarpar mannfjöldann eftir morðið.
Sara Canning, unnusta Lyru McKee, ávarpar mannfjöldann eftir morðið. AFP

Lögreglan á Norður-Írlandi hefur á grundvelli hryðjuverkalaga handtekið 57 ára konu sem grunuð er um skotárásina. Hún hefur nú sleppt tveimur ungum mönnum sem handteknir voru fljótlega eftir morðið, án ákæru.

Nýi írski lýðveldisherinn hefur að undanförnu sent bréfasprengjur og sprengt bílsprengjur. Aðgerðir hópsins hafa valdið stjórnvöldum áhyggjum, ekki síst nú í aðdraganda Brexit en einn hluti af því verður að efla landamæravörslu milli Írlands og Norður-Írlands sem hefur farið illa í lýðveldissinna beggja vegna landamæranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert