Repúblíkani vill Trump ákærðan

Forsetinn við ræðuhöld í höfuðborginni Washington D.C. í fyrradag.
Forsetinn við ræðuhöld í höfuðborginni Washington D.C. í fyrradag. AFP

Fyrsti bandaríski þingmaðurinn úr röðum Repúblíkanaflokksins sem kallar eftir því að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé ákærður hefur litið dagsins ljós. Sá heitir Justin Amash, fulltrúardeildarþingmaður Michigan-ríkis, og lýsti skoðunum sínum á twitter reikningi sínum í gærkvöld. 

Þar segir hann m.a. að Trump hafi tekið þátt í aðgerðum sem verðskuldi ákæru, en málið tengist rannsóknarskýrslu Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, á meintum tengslum kjörs Trumps árið 2016 við Rússland. 

Segir Amash í tísti sínu einnig að William Barr ríkissaksóknari hafi vísvitandi rangtúlkað skýrslu Muellers, og að einungis fáir þingmenn hafi lesið hana. 

Eins og fram kom á sínum tíma fann Mueller engin sannanleg tengsl milli Trump og Rússa en tiltók hins vegar tíu tilvik þar sem Trump reyndi mögulega að hindra framgang réttvísinnar. 

mbl.is