Boðar frið og þingkosningar

Volodimír Selenskí, nýkjörinn forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí, nýkjörinn forseti Úkraínu. AFP

Volodimír Selenskí, nýkjörinn forseti Úkraínu, greindi frá því í innsetningarræðu sinni í morgun að hans helsta forgangsmál í embætti væri að binda endi á átök við aðskilnaðarsinna, sem njóta stuðnings stjórnvalda í Rússlandi, í austurhluta landsins. Yfir 13 þúsund hafa látist í þessum átökum. 

Selenskí, sem áður starfaði sem grínleikari, var kjörinn forseti í síðasta mánuði og er yngsti einstaklingurinn sem hefur sest í sæti forseta Úkraínu en hann er 41 árs að aldri. „Okkar fyrsta markmið er að koma á vopnahléi í Donbass,“ sagði Selenskí. „Við hófum ekki þetta stríð en við ætlum að ljúka því.“

Hann ítrekaði að Úkraína viðurkenndi ekki yfirráð Rússa yfir Krímskaganum né heldur sjálfskipað lýðveldi í austri. „Krím og Donbass eru hluti af Úkraínu,“ sagði hann. 

Við innsetninguna í þinghúsinu í Kænugarði í morgun greindi hann einnig frá því að hann myndi leysa upp þingið og boða til snemmbúinna þingkosninga en til stóð að þær færu fram í október.

mbl.is