Trump fær enn ekki fjármagn fyrir múrinn

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Alríkisdómarinn Haywood Gilliam hindraði í gærkvöldi að ráðagerð Donalds Trump Bandaríkjaforseti um nýtingu sjóða varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna til að fjármagna múr við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó næði fram að ganga.

Með 56 blaðsíðna úrskurði sínum stöðvaði Gilliam sérstök verkefni bandarískra stjórnvalda í Texas- og Arizona-ríkjum og staðfesti að Trump hefði ekki heimild til að hreyfa við fjármagni ráðuneytisins án samþykkis þingsins.

Úrskurðurinn kemur ekki í veg fyrir það að ríkisstjórn Trump verði sér út um fjármagn annars staðar, en þó kemur fram á vef CNN að niðurstaðan sé töluvert áfall fyrir forsetann og áætlun hans um að reisa landamæramúr við suðurlandamæri Bandaríkjanna. Málið hefur löngum verið eitt af lykilmálefnum forsetans.

Gilliam, sem skipaður var af Barack Obama á forsetatíð hans, segir það stríða gegn þrískiptingu ríkisvalds Bandaríkjanna ef forseti hyggst nota ríkisfjármagn án samþykkis þingsins, en fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur áður hafnað beiðni forsetans um fjármagn fyrir múr við landamærin.

Fulltrúardeildin, þar sem þingmenn Demókrata eru í meirihluta, höfðaði einnig mál fyrir alríkisdómstólum í viðleitni sinni til að stöðva nýtingu fjármagns úr varnamálasjóðum fyrir landamæramúr. Fór málsmeðferð fram fyrir dómara í því máli fyrr í vikunni en ekki liggur fyrir hvenær úrskurður verður kveðinn upp.

mbl.is