Seðlabankastjóri Tyrklands rekinn

Murat Cetinkaya tók við embætti seðlabankastjóra í apríl 2016. Engin …
Murat Cetinkaya tók við embætti seðlabankastjóra í apríl 2016. Engin opinber ástæða hefur verið gefin fyrir brottrekstri hans. AFP

Seðlabankastjóri Tyrklands, Murat Cetinkaya, hefur verið rekinn samkvæmt forsetatilskipun. Frá þessu greina ríkisfjölmiðlar í Tyrklandi. 

Cetinkaya hefur gegnt embætti seðlabankastjóra síðan í apríl 2016 en undanfarið hefur hann sætt ítrekaðri gagnrýni frá Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, vegna hárra stýrivaxta. Erdogan hefur farið fram á að stýrivextir verði lækkaðir til að auka hagvöxt í landinu. 

„Háir stýrivextir eru móðir og faðir alls ills,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Erdogan. Stýrivextir voru hækkaðir í 24 prósent í ágúst á síðasta ári vegna gjaldmiðlakrísu. 

Fyrrverandi undirmaður Cetinkaya, Murut Uysal, tekur við stöðu seðlabankastjóra, en engin opinber ástæða hefur verið gefin um brottreksturinn. Usyal segist ætla að halda áfram að fylgja sjálfstæðri peningastefnu seðlabankans og markmiðið sé að viðhalda verðstöðugleika.

Verðbólga í Tyrklandi mælist nú 15,72 prósent og hefur lækkað um þrjú prósentustig síðan í maí. 

mbl.is