Borgarísinn hvítagull hafsins

Það er hádegi og kanadíski fiskimaðurinn Edward Kean skimar eftir haffletinum í leit að borgarísjökum sem hafa brotnað af Grænlandsjökli og flotið á haf út. Hann ljómar allur þegar hann kemur auga á næsta feng, borgarísjaka sem er tugir metra að hæð og lónar rétt utan við strönd Nýfundnalands.

„Þetta er gæða ís,“ segir Kean sem er skipstjóri fiskibátsins Green Waters, er hann virðir ísjakann fyrir sér í gegnum kíkinn.

Hvern morgun halda Kean og þriggja manna áhöfn hans úr höfn í leit að borgarís, sem AFP-fréttaveitan segir orðið að hans persónulega hvítagulli.

Edward Kean miðar með rifflinum á borgarísinn og vonast til …
Edward Kean miðar með rifflinum á borgarísinn og vonast til að eitthvað hrynji úr jakanum. AFP

Ísinn settur á flöskur, í áfengi og snyrtivörur

Undanfarin 20 ár hefur Kean fangað borgarísjakana, dregið til hafnar og síðan selt þá til fyrirtækja með góðum hagnaði. Fyrirtækin setja svo ísinn  á flöskur, blanda hann í áfengi eða nota hann til að framleiða snyrtivörur.

Viðskiptinn hjá Kean hafa aukist í réttu hlutfalli við hlýnun jarðar, sem er enn hraðari á Norðurskautsslóðum og felur í sér að fleiri borgarísjakar leita suður í átt að Nýfundnalandi.

Starfið er samt erfitt, vinnudagarnir langir og það er ekki auðvelt að fanga „uppskeruna“.

Í dag þarf Kean að sigla 24 km leið til að finna borgarísjakann sem hann kom fyrst auga á á gervihnattamynd. Er þeir koma að borgarísjakanum sem lónar í Bonavista flóa,  tekur Kean upp riffil og skýtur á ísinn í von um að hluti hans muni brotna af.

Eitt skot, tvö og svo þrjú hljóma og á meðan heldur áhöfnin í sér andanum, en ísinn gefur sig ekki.

„Stundum virkar þetta og stundum ekki,“ útskýrir Kean.

Stærð borgarísjakanna sést vel hér því bátur Keans verður agnarsmár …
Stærð borgarísjakanna sést vel hér því bátur Keans verður agnarsmár í samanburði. AFP

Kapphlaup að ná jökunum áður en þeir bráðna

Síðsumar er kapphlaup um að ná ísjökunum áður en þeir bráðna. „Þeir koma hingað og bráðna mjög hratt,“ segir skipstjórinn og bætir við að þegar þeir fljóta burt frá strönd Nýfundnalands sé þetta kapphlaup við tímann.

„Hér á Nýfundnalandi er þetta eins og fallandi laufblöð. Þeir munu drepast innan hálfs mánaðar og hafa þá hvort eð er samlagast náttúrunni,“ útskýrir hann.

„Þannig að við erum ekki að skaða umhverfið. Við erum ekki að fjarlægja neitt — við erum bara að nýta hreinasta vatn sem við getum fengið.“

Tveir áhafnarmeðlimir halda því næst til móts við borgarísinn á mótorbát og finna ísblokkir sem fljóta í næsta nágrenni. Vopnaðir stöng og neti þá fanga þeir ísblokkirnar sem vega allt að 1-2 tonn hver. Festa þá svo saman á krók á endanum á krana á dekki fiskibátarins sem svo dregur þá í burtu.

Kean brýtur svo upp blokkirnar með exi og kemur brotunum fyrir í 1.000 lítra fiskikerum þar sem þeir munu bráðna næstu daga.

Áhöfnin fangar ísklumpana í net sitt og svo eru þeir …
Áhöfnin fangar ísklumpana í net sitt og svo eru þeir hífðir um borð í skipið. AFP

Vatnsflaskan seld fyrir 1.500 kr.

Yfir háannatímann getur áhöfnin á Green Water safnað allt að 800.000 lítrum af vatni daglega, sem þeir selja svo kaupmönnum á Nýfundnalandi fyrir dollara hvern lítra. Kaupmennirnir markaðssetja síðan varning sinn sem vörur úr einu hreinasta vatni sem fáanlegt er.

Fyrirtækið Dyna Pro, er meðal viðskiptavina Keans. Það selur viðskiptavinum sínum vatnið í glerflöskum fyrir 16 Kanadadollara stykkið (um 1.500 kr.).  Kúnnahópurinn er efnað fólk og vonast fyrirtækið til að færa út kvíarnar erlendis.

„Við erum líklega stærri í dag en nokkru sinni áður. Við sendum borgarísvatn til Evrópu, Singapore og Dubai,“ segir framkvæmdastjórinn Kerry Chaulk. „Svo vorum við að fá viðskiptavini í Miðausturlöndum fyrir glerflöskurnar okkar.“

Víngerðin Auk Island í ferðamannaþorpinu Twillingate, býr til vín úr villtum berjum og borgarísvatni og verðið á flöskunum er á bilinu 10-90 Kanadadollarar.

Við notum vatn úr borgarísjaka af því að það er tærasta, hreinasta vatn sem við höfum aðgang að á jörðinni,“ segir starfsmaðurinn Elizabeth Gleason við AFP. „Það gefur manni mjög hreint og tært bragð af hverju því sem það er blandað með.“

Ísblokkirnar eru brotnar upp með exi og er svo komið …
Ísblokkirnar eru brotnar upp með exi og er svo komið fyrir í 1.000 lítra fiskikerum þar sem ísinn er látinn bráðna. AFP

Hlýnunin á Norðurskautinu þrisvar sinnum hraðari

Melissa Axtman, ferðamaður frá Bandaríkjunum, segist njóta allra hlutanna sem búnir eru til úr borgarísvatni. Hún viðurkenndi þó að aukinn fjöldi borgarísjaka væri bæði af hinu góða og slæma, þar sem það væri eitt af einkennum loftslagsvárinnar.

Sérfræðingar segja hlýnun jarðar á Norðurskautssvæðunum vera þrisvar sinnum hraðari en annars staðar á jörðunni.

Þó að borgarísinn frá Green Waters njóti vinsælda, er áhöfnin lítil og áhöldin sem eru notuð hafa varla breyst í áratugi.

„Það vill enginn lengur vinna þessa líkamlegu vinnu,“ segir Kean sem á í vanda með halda lengi í starfsfólk. „Vonandi getum við þó haldið áfram næstu árin, en ég er að verða sextugur þannig að tími minn fer að verða búinn.“

Yfir háannatímann getur áhöfnin á Green Water safnað allt að …
Yfir háannatímann getur áhöfnin á Green Water safnað allt að 800.000 lítrum af vatni daglega. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert