Bað hundruð fórnarlamba afsökunar

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur beðið hundruð fórnarlamba opinberlega afsökunar á þeirri misnotkun sem þau urðu fyrir á ríkisreknum upptökuheimilum.

Á árunum 1945 til 1976 voru börn misnotkuð kynferðislega, þau lamin og þeim gefin lyf, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á því sem gerðist. Misnotkunin átti sér stað víðs vegar um Danmörku. Í mörg ár hefur verið barist fyrir því að ríkið viðurkenni sök.

„Það skiptir öllu máli að fá þessa afsökunarbeiðni. Það eina sem við vildum var hugarró,“ sagði Arne Roel Jorgensen, eitt fórnarlambanna, í samtali við BBC. Jorgensen, sem er 68 ára, bætti við að líf margra barnanna hefðu eyðilagst vegna misnotkunarinnar. Misnotkun áfengis, eiturlyfja, fjöldi mismunandi starfa og misheppnuð hjónabönd hefði tekið sinn toll. 

Niðurlægð og misnotuð

Fyrst var sagt opinberlega frá því sem gerðist í danskri heimildarmynd sem var sýnd í sjónvarpinu árið 2005 þegar greint var frá misnotkun á drengjaheimilinu Godhavn Boys í norðausturhluta Danmerkur.

Frederiksen hitti tugi fórnarlambanna í ráðherrabústað sínum í Marienborg í dag. Mörg þeirra táruðust er hún greindi frá því að börn hefðu verið tekin frá foreldrum sínum og í stað þess að fá stuðning og hlýju hefðu þau verið niðurlægð og misnotuð.

„Yfirvöld gerðu ekki neitt. Sem samfélag getum við ekki og megum ekki loka augunum,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert