Heimilt að leggja hald á olíuskipið

Olíuskipið Grace 1 við Gíbraltar í gær. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur …
Olíuskipið Grace 1 við Gíbraltar í gær. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur heimilað að lagt verði hald á það. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna gaf út heimild í dag fyrir því að lagt verði hald á íranska olíuskipið Grace 1 sem yfirvöld á Gíbraltar kyrrsettu í byrjun síðasta mánaðar.

Hæstiréttur Gíbraltar komst að þeirri niðurstöðu í gær að aflétta bæri kyrrsetningu olíuskipsins eftir að stjórnvöld í Íran höfðu heitið því að skipinu yrði ekki siglt til ríkis sem refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins væri beint að. Olíuskipið var upphaflega kyrrsett með hjálp breskra landgönguliða á þeim forsendum að það væri á leið til Sýrlands.

Ráðamenn í Íran hafa hins vegar hafnað því að þeir hafi heitið því að olíuskipið færi ekki til Sýrlands til þess að því yrði sleppt. Skipið hafi hins vegar ekki verið á leið þangað en jafnvel þó svo hafi verið kæmi það engum öðrum við. Hafa íranskir ráðamenn sagt að stjórnvöld á Gíbraltar hafi aðeins sagt þetta til þess að halda haus í málinu.

Ríkisstjórn Gíbraltar segist hins vegar hafa skriflega yfirlýsingu frá stjórnvöldum í Íran þess efnis að olíuskipið muni ekki verða notað til þess að brjóta gegn refsiaðgerðum Evrópusambandsins. Enn fremur segjast ráðamenn á Gíbraltar að sannanir hafi fundist um borð í olíuskipinu um að ferð þess hefði verið heitið til Sýrlands.

Bresk stjórnvöld sendu frá sér yfirlýsingu eftir að hæstiréttur Gíbraltar hafði komist að niðurstöðu sinni og kallaði eftir því að ráðamenn í Íran heimiluðu bresku olíuskipi, sem íranskir hermenn kyrrsettu á Persaflóa sem svar við kyrrsetningu Grace 1, að halda sína leið. Íranar svöruðu á þá leið að breska skipið hefði brotið hafréttarlög.

Fram kemur í frétt AFP að heimild dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna feli í sér að hald skuli lagt á íranska skipið, olíuna um borð og tæplega eina milljón dollara í peningum vegna brota á alþjóðasamningum, peningaþvættis og hryðjuverkastarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka