Dorian sækir í sig veðrið

Íbúar í Flórída búa sig undir það versta.
Íbúar í Flórída búa sig undir það versta. AFP

Fellibylurinn Dorian hefur aukið styrk sinn og er kominn á annað stig mælikvarða Saffir-Simpson. Vindhraðinn er kominn í 46 metra á sekúndu og er talið að Dorian verði kominn á fjórða stig kvarðans þegar hann nær landi. Efsta stig fellibylja er fimm. 

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku fellibyljamiðstöðinni (NHC) er talið að fellibylurinn komi að landi einhvers staðar á milli Flórída og suðurhluta Georgíu seint á sunnudag. 

Í grein sem Trausti Jóns­son veður­fræðing­ur skrifaði árið 2008 er bent á að tjón sem felli­bylj­ir geta valdið vex mjög með vax­andi vind­hraða.

Tjón sem fellibyljir geta valdið vex mjög með vaxandi vindhraða. Fellibylur þar sem mesti meðalvindhraði er 70 m/s veldur margföldu tjóni á við annan þar sem mesti vindhraði er 35 m/s. Umfang viðbragða ræðst því af hugsanlegum styrk þegar fellibylurinn gengur á land. Af hagkvæmnisástæðum hefur verið búinn til fimmskiptur kvarði um styrk byljanna og áhrif þeirra. Auðveldara er að muna þessi stig fremur en vindhraðabil.

Saffir-Simpson-kvarðinn

Stiginn er kenndur við vísindamennina Saffir og Simpson, Saffir-Simpson-kvarðinn. Upplýsingar hér að neðan eru lítillega stytt þýðing á lýsingu sem finna má á vefsíðum bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami. Vindhraðinn sem miðað er við er 1-mínútu meðatal. Hér á landi er ætíð miðað við 10-mínútna meðaltal vinds. Hlutfall einnar mínútu meðaltalsins og þess 10-mínútna er sennilega á bilinu 1,03 til 1,15.

Styrkur 1
Vindhraði 32 til 42 m/s (64-82 hnútar). Sjávarstaða yfirleitt 1,3 til 1,5 m yfir meðallagi. Lítið tjón á byggingum, en hjólhýsi, tré og veigalítil umferðarmerki geta orðið illa úti. Minni háttar sjávarflóð og tjón á lausum bryggjum.

Styrkur 2
Vindur 43 til 49 m/s (83-95 hnútar). Sjávarstaða yfirleitt 2 til 2,5 m yfir meðallagi. Þakplötur fjúka af sumum húsum, tjón verður einnig á gluggum og lélegum dyraumbúnaði. Tré skemmast og sum falla til jarðar. Hjólhýsi, veigalítil umferðarmerki og lausar bryggjur skemmast mikið. Minni skip og bátar, sem lagt er við ströndina utan hafna, slitna upp.

Styrkur 3
Vindhraði 50 til 67 m/s. Sjávarstaða yfirleitt 3 til 4 m yfir meðallagi. Sum íbúðarhús og minna atvinnuhúsnæði skaddast og sumir lausir veggir falla saman. Stór tré falla til jarðar. Hjólhýsi og mörg umferðarmerki eyðileggjast. Sjávarflóð eyðileggja minni mannvirki og tjón verður á stærri mannvirkjum vegna álags frá braki úr þeim sem eyðileggjast. Sjór getur flætt 10 til 12 km inn í land á svæðum sem liggja minna en 2 m yfir sjávarmáli.

Styrkur 4
Vindhraði 68 til 80 m/s. Sjávarstaða yfirleitt 4 til 6 m yfir meðallagi. Mörg minni íbúðarhús hrynja. Tré rifna upp með rótum, öll umferðarmerki falla. Hjólhýsi gjöreyðileggjast. Mikið tjón á gluggum og dyrabúnaði. Meiri háttar tjón á lægstu hæðum sterkra bygginga nærri ströndinni. Rýma þarf íbúðarsvæði allt að 10 km frá ströndinni.

Styrkur 5
Vindhraði yfir 80 m/s. Sjávarstaða yfirleitt meir en 6 m hærri en að meðallagi. Þak tekur af mörgum íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði. Sum hús gjöreyðileggjast og fjúka í heilu lagi. Hjólhýsi gjöreyðileggjast og mikið tjón verður á gluggum og dyrabúnaði vel byggðra húsa. Nær öll tré rifna upp með rótum, öll umferðarmerki falla. Meiri háttar tjón við ströndina vegna flóða. Rýma þarf íbúðarhúsnæði allt að 16 km frá ströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert