„Þið munuð kæfa mig“

Sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn á ræðismannaskrifstofu heimalands síns …
Sádiarabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn á ræðismannaskrifstofu heimalands síns í Tyrklandi. AFP

Lokaorð sádiarabíska blaðamannsins Jamals Khashoggis voru að biðja morðingja sína að hylja ekki munn sinn af því að hann væri með astma og gæti kafnað. Þetta kemur fram í tyrkneska dagblaðinu Sabah sem hefur birt nýtt afrit af upptökum af samræðum Khashoggis við liðsmenn sádiarabíska teymisins sem var sent til að drepa hann.

Guardian segir Sabah hafa náin tengsl við tyrknesk stjórnvöld, en blaðið segir tyrknesku leyniþjónustuna hafa undir höndum upptökur af hrottalegu morði á Khashoggi og meintri sundurlimun á líki hans sem á að hafa átt sér stað á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október í fyrra.

Samkvæmt endurritinu segir Maher Abdulaziz Mutreb, einn liðsmaður teymisins, við Khashoggi að þeir verði að taka hann með sér aftur til Riyadh í Sádi-Arabíu af því að Interpol hafi gefið út skipun gegn honum. Khashoggi heyrist mótmæla þessu og segir engin málaferli í vinnslu gegn sér og að unnusta sín bíði eftir sér fyrir utan.

Þá heyrast Mutreb og annar maður reyna að neyða Khashoggi til að senda syni sínum skilaboð og biðja hann að hafa ekki áhyggjur þótt hann heyri ekkert frá honum. Þessu á Khashoggi að hafa neitað. „Ég skrifa ekkert,“ sagði hann.

Því svarar Mutreb til: „Hjálpaðu okkur svo við getum hjálpað þér. Af því að á endanum þá munum við taka þig með til Sádi-Arabíu og ef þú hjálpar okkur ekki þá veistu hvað mun gerast á endanum.“

Sabah birti einnig lokaorð Khashoggis áður en honum á að hafi verið gefið lyf sem olli meðvitundarleysi.

„Ekki hylja munninn á mér,“ sagði hann. „Ég er með astma. Ekki gera það. Þið munuð kæfa mig.“

Sum atriði endurritsins höfðu þegar komið fram í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar birtu í júní. Í þeirri skýrslu var fullyrt að Sádi-Arabía bæri ábyrgð á morðinu og að rannsaka þyrfti þátt krónprinsins Mohammeds bin Salmans.

Sádiarabísk yfirvöld veittu í upphafi margar mögulegar skýringar á hvarfi Khashoggis áður en sú skýring var gefin að hann hefði verið myrtur af sádiarabískum embættismönnum sem hefðu tekið málin í eigin hendur. Khashoggi hefði svo látist eftir að til átaka kom inni á ræðismannsskrifstofunni.

mbl.is