50 glæpagengi að störfum í Stokkhólmi

Mörg glæpagengjanna eru vel vopnum búin, 15 hafa orðið fyrir …
Mörg glæpagengjanna eru vel vopnum búin, 15 hafa orðið fyrir lífhshættulegum skotum í Svíþjóð það sem af er árs. AFP

Glæpagengi í Stokkhólmi og þar í kring eru nú orðin 50 talsins og eru konur farnar að taka virkari þátt í skipulagðri glæpastarfsemi í Stokkhólmi en áður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá lögregluyfirvöldum í Svíþjóð. Fréttavefurinn The Local greinir frá þessu. 

Samkvæmt skýrslunni eru 20 gengjanna ný en um 30 þeirra hefur áður verið fjallað í fyrri sambærilegum skýrslum. 

Árið 2017 voru gengin 47 talsins en 39 talsins árið 2015. Lögreglan hefur gefið út að nú taki um 1.500 manns þátt í skipulagðri glæpastarfsemi í Stokkhólmi. Hlutfall kvenna í þessum fjölda hefur aukist síðan árið 2017. 

„Sumir hópanna hafa horfið og aðrir bæst við,“ segir Palle Nilsson, yfirmaður sænsku leyniþjónustunnar. 

Meðalaldur fer lækkandi

Í skýrslunni segir að konur takist frekar á við að skipuleggja glæpi, framkvæma þá og styðja við glæpagengi en áður. 

Meðalaldur þeirra sem taka þátt í glæpagengjunum fer lækkandi en í þeim flestum eru einstaklingar sem eru yngri en sextán ára gamlir. 

Í skýrslunni er sagt frá auknum hreyfanleika meðal hópanna sem verður til þess að fleiri taka þátt í nokkrum glæpagengjum en áður. „Þá eru skýr merki þess að glæpagengi séu farin að vinna meira saman, bæði innanlands og alþjóðlega,“ segir í skýrslunni. 

Mörg gengjanna hafa greiðan aðgang að vopnum en fimmtán manns hafa orðið fyrir banvænum byssuskotum í Stokkhólmi á fyrstu níu mánuðum þessa árs. 

Í skýrslunni er einnig bent á að glæpagengin séu nú líklegri til þess að stunda mannrán en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert