Macron gefur Boris frest út vikuna

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur gefið Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, frest út vikuna til að gera grundvallarbreytingar á tillögu sinni um tilhögun útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Yfirlýsingin er talin auka líkur á því að tilraunir til að ná samkomulagi fari út um þúfur, en Bretar ganga að óbreyttu úr sambandinu 31. október.

Breska ríkisstjórnin lagði í síðustu viku fram tillögu um útgöngu en þar er gert ráð fyrir að Bretar yfirgefi tollabandalag og innri markað sambandsins árið 2021 með fríverslunarsamningi, en Norður-Írland verði áfram að miklu leyti hluti innri markaðarins til 2025, hið minnsta, er norðurírska þingið geti ákveðið hvort það segi skilið við innri markað ESB með tilheyrandi landamæragæslu á landamærum Norður-Írlands og Írlands.

Leiðtogar Evrópusambandsins hafa tekið tillögunni fálega, en Guardian greinir frá því að forsetinn hafi hafnað því að ræða við Johnson í eigin persónu, og þess í stað vísað á Michel Barnier, aðalsamningamann Evrópusambandsins í viðræðunum um útgöngu.

Barnier hefur áður gefið út að hann hafi ekki umboð frá leiðtogum Evrópusambandsríkjanna 27 til að samþykkja þá skilmála sem bresk stjórnvöld hafa lagt til. Þá hefur David Frost, aðalsamningamanni Breta, ítrekað verið sagt að ekki komi til greina að gera meiri háttar breytingar á samkomulaginu 17. október er síðasti leiðtogafundur Evrópusambandsins, fyrir fyrirhugaða útgöngu Breta, á að fara fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina