Engin viðbrögð við hjálparbeiðni

AFP

Áhöfn skips sem  bjargaði 176 flóttamönnum á Miðjarðarhafi um helgina segir að ekkert Evrópuríki hafi boðið þeim að koma til hafnar með fólkið.

Skipið, Ocean Viking, er gert út af tveimur mannúðarsamtökum; SOS Mediterranee og Læknum án landamæra. Áhöfnin kom fólkinu til bjargar þar sem það var á tveimur loftlausum gúmmíbátum fyrir utan strönd Líbýu. Meðal annars voru fjórar þungaðar konur um borð og að minnsta kosti 9 börn yngri en 16 ára. Ekki þykir óhætt fyrir fólkið að fara í land í Líbýu. Beiðni áhafnarinnar til ríkja Evrópu um að veita fólkinu aðstoð kemur á sama tíma og leiðtogar ríkja ESB reyna að ná samkomulagi um hvernig eigi að taka á móti þeim þúsundum sem reyna að koma til Evrópu frá Afríku.

Samkvæmt upplýsingum frá SOS Mediterranee er þetta í fjórða skiptið sem þau hafa óskað eftir því að fá að koma til hafnar í ESB-ríki frá því ágúst. Ítalía, Frakkland, Þýskaland og Malta kynntu í síðasta mánuði kerfi sem miðar að því að dreifa hælisleitendum um ríki ESB strax og fólk kemur að landi en afar fá ríki hafa tekið undir þetta með þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert