Twitter bannar pólitískar auglýsingar

Jack Dorsey, forstjóri Twitter, segir að samfélagsumræðan standi frammi fyrir …
Jack Dorsey, forstjóri Twitter, segir að samfélagsumræðan standi frammi fyrir áskorunum vegna pólitískra auglýsinga á alnetinu. AFP

Samfélagsmiðillinn Twitter ætlar að banna allar pólitískar auglýsingar á miðlinum og segja forsvarsmenn hans að pólitískur stuðningur ætti að vera „áunninn, ekki keyptur.“

„Þó netauglýsingar séu ótrúlega öflugar og mjög árangursríkar fyrir auglýsendur, þá veldur sá kraftur verulegri áhættu fyrir stjórnmálin,“ sagði forstjóri Twitter, Jack Dorsey. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu.

Samfélagsmiðillinn Facebook útilokaði nýverið að pólitískar auglýsingar yrðu bannaðar á Facebook. Samfélagsmiðlar eru nú undir smásjánni vegna komandi kosninga í Bandaríkjunum sem haldnar verða á næsta ári. 

Bann Twitter tekur gildi þann 22. nóvember næstkomandi en nánari upplýsingar um bannið verða gefnar út 15. nóvember. 

Dorsey útskýrði ákvörðun Twitter í þræði á Twitter í dag.

„Samfélagsumræðan stendur frammi fyrir alveg nýjum áskorunum vegna pólitískra auglýsinga á alnetinu,“ sagði Dorsey. Þær áskoranir eru, að sögn Dorseys, meðal annars villandi upplýsingar og djúpfölsun.

Hillary Clinton, fyrrum forsetaframbjóðandi sem tapaði fyrir Donald Trump í síðustu kosningum, fagnaði banni Twitter og skorar á Facebook að feta í fótspor samkeppnisaðilans. 

mbl.is