Tyrkir og Rússar vöktuðu sýrlensk landamæri

Ljósmyndarar AFP náðu myndum af tyrkneskum og rússneskum herökutækum áður …
Ljósmyndarar AFP náðu myndum af tyrkneskum og rússneskum herökutækum áður en þau fóru af stað í eftirlitsferðirnar í dag. AFP

Tyrkir fóru í eftirlitsferðir í norðurhluta Sýrlands í dag ásamt Rússum í þeim tilgangi að sannreyna hvort kúrdískar hersveitir hafi dregið sig út af lykilsvæðum landamæra Sýrlands og Tyrklands.

Eftirlitsferðirnar hófust um klukkan níu í morgun en þær koma í kjölfar samkomulags sem Rússar og Tyrkir undirrituðu í síðustu viku. Samkomulagið fól í sér að kúrdískar hersveitir yrðu að hörfa frá landsvæðum meðfram landamærum Sýrlands og Tyrklands á 150 klukkustundum eftir að samkomulagið var undirritað. 

Hér sjást vígbúnir rússneskir hermenn.
Hér sjást vígbúnir rússneskir hermenn. AFP

Flókin samsetning við landamærin

Eftirlitssveitirnar bættust við flókna blöndu hermanna sem starfa meðfram landamærunum, en þar eru meðal annarra bandarískir hermenn sem vöktuðu austurhluta fyrrnefndra landamæra í fyrsta sinn á fimmtudaginn síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í síðasta mánuði að bandarískir hermenn myndu draga sig í hlé.

Eftirlitsferðunum lauk klukkan korter yfir eitt í dag en þær hófust nálægt landamærabænum Derbasiyeh. Kúrdískir hermenn höfðu þá þegar yfirgefið bæinn. 

Hermennirnir stefndu svo austur af Derbasiyeh í bílalest tyrkneskra og rússneskra herflutningabifreiða samkvæmt tyrkneska hernum.

mbl.is