Örugglega ágætiskona

Marie Yovanovitch er fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu.
Marie Yovanovitch er fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu. AFP

Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, Marie Yovanovitch, taldi sér ógnað af forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, en Trump segist ekki þekkja hana en telja að hún sé örugglega ágætiskona. 

Afrit af vitnisburði Yovanovitch var birt í gær og vísar hún þar til símtals Trumps við forseta Úkraínu, Volodymyr Zelensky. Þetta er meðal þess sem kemur fram í  afriti af vitnisburði hennar fyrir rannsóknarnefnd fulltrúadeildar þingsins í Washington. 

Yovanovitch var tekin úr embættinu fyrr á árinu og kölluð heim til Bandaríkjanna. Ástæðan var sú að hún hafði grafið undan tilraunum Trumps til að fá stjórnvöld í Úkraínu til að fyrirskipa rannsókn á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta, sem sækist nú eftir því að verða forsetaefni demókrata í kosningunum á næsta ári.

Afrit af vitnisburði Yovanovitch fyrir nefndinni 11. október var gert opinbert í gær. Þar kom meðal annars fram að hún hafði hvatt Úkraínu til þess að leggja meira af mörkum í baráttunni gegn spillingu.

Hún sagði fyrir nefndinni að henni hafi verið vikið úr embætti vegna falskra ásakana sem dreift var af aðilum sem tengjast Trump. Hún hafi verið vöruð við auknum afskiptum persónulegs lögmanns Trumps, Rudy Giuliani, af málefnum Úkraínu og sérstaklega tilraunum hans til þess að fá stjórnvöld í Úkraínu til að hefja rannsókn á málum Biden. 

Hún segir að sér hafi brugðið mjög þegar hún las samantekt á símtali Trumps til Zelensky 25. júlí þar sem Trump sagði sendiherrann (hana) vera að fara í gegnum ákveðna hluti. „Ég varð mjög áhyggjufull og er það enn,“ sagði Yovanovitch fyrir nefndinni í október. Hún var spurð hvort hún teldi sér ógnað og svaraði hún því játandi. 

Þegar Trump var spurður út í vitnisburð Yovanovitch í gær sagðist hann ekki þekkja hana.

„Ég þekki hana ekki,“ sagði Trump við fréttamenn í gærkvöldi og bætti við að hann væri viss um að hún væri örugglega ágætiskona. 

mbl.is