Búa sig undir verstu gróðureldaógn í sögu Ástralíu

Þyrla sleppir vatni yfir gróðurelda sem loga við smábæinn Nana ...
Þyrla sleppir vatni yfir gróðurelda sem loga við smábæinn Nana Glen, 600 km norður af Sydney. Yfirvöld hafa varað við að eldarnir geti breiðst hratt út í dag. AFP

Íbúar á stóru svæði við austurströnd Ástralíu búa sig nú undir eina þá verstu gróðureldaógn sem Ástralía hefur staði frammi fyrir.

Gróðureldar loga nú á meira en 50 stöðum í New South Wales og eru aðstæður fyrir eldana sagðar verða „hörmulegar“ í dag. Hafa yfirvöld varað við að eldarnir muni breiðast hratt út í fylkinu vegna sterkra vinda og hás hitastigs þannig að lífi manna og dýra  geti staðið ógn af.

Um sex milljónir manna búa í fylkinu.

Brunninn skógur eftir gróðurelda í nágrenni borgarinar Sydney.
Brunninn skógur eftir gróðurelda í nágrenni borgarinar Sydney. AFP

Hafa íbúar á þeim svæðum sem stafar mikil hætta af eldunum verið hvattir til að halda sig fjarri kjarrlendissvæðum og að flýja heimili sín áður en eldarnir magnast upp. Rúmlega 600 skólum í New South Wales hefur verið lokað vegna eldanna.

Gladys Berejiklian, fylkisstjóri New South Wales, hefur lýst yfir sjö daga neyðarástandi vegna eldanna. BBC hefur eftir Berejiklian að dagurinn í dag muni snúast um að „verja líf og eignir og reyna að tryggja að allir séu jafn heilir á húfi og hægt sé“.

Hestur og hundur sem fluttir voru í skýli vegna gróðureldanna ...
Hestur og hundur sem fluttir voru í skýli vegna gróðureldanna sem nú loga í New South Wales. Reykjarmökkinn leggur þó einnig þarna yfir. AFP

Þegar eru þrír látn­ir og þúsund­ir hafa þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín í norður­hluta rík­is­ins. Þar hafa yfir 150 hús orðið eld­in­um að bráð en tug­ir kjar­relda geisa þar. Und­an­farna mánuði hafa 11 þúsund fer­kíló­metr­ar lands, svæði sem er stærra en Jamaíka eða Kosovo, orðið eld­in­um að bráð. 

Yfirvöld segja ástandið sem fylkið stendur nú frammi fyrir geta orðið „hættulegustu gróðureldaviku sem landið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir“.

Eldvarnarefni er hér sleppt úr flugvél í nágrenni Sydney, í ...
Eldvarnarefni er hér sleppt úr flugvél í nágrenni Sydney, í von um að ná stjórn á gróðureldunum sem loga í New South Wales. AFP

Hafa sérfræðingar raunar líkt spánni fyrir daginn í dag við hinn svo kallaða „svarta laugardag“ þegar 173 fórust í gróðureldum í Victoria-fylki árið 2009.

„Undir stórslysalegum aðstæðum þá geta eldar sem kvikna og ná að loga þróast mjög hratt yfir í að verða að stórum eldum mjög, mjög auðveldlega,“ segir Shane Fitzsimmons lögreglustjóri í New South Wales.

Er þetta í fyrsta skipti sem viðvörun um „hörmulega“ gróðurelda hefur verið gefin út fyrir úthverfi Sydney og byggðirnar norður og suður af borginni. Er þetta raunar í fyrsta skipti frá eldunum mannskæðu 2009 sem slík viðvörun hefur verið gefin út.

mbl.is