Flytji vandamálin frá einni borg til annarrar

Jakarta er staðsett við sjóinn, í mýri og í gegnum …
Jakarta er staðsett við sjóinn, í mýri og í gegnum hana renna 13 ár. Samhliða hækkandi sjávarmáli sökum loftslagsbreytinga eykst vatnsþörf með auknum fólksfjölda og því er meira af grunnvatni dregið upp á yfirborðið. AFP

Indónesíska þjóðin átti ekki góðu að venjast frá leiðtogum landsins fyrr en Joko Widodo var kjörinn forseti árið 2014. Hann er fyrsti forseti landsins sem ekki kemur úr röðum hersins eða yfirstéttar stjórnmálafólks, en hann hlaut fyrst gott orðspor sem borgarstjóri Surakarta, þar sem hann beitti sér m.a. gegn spillingu og fyrir auknum lífsgæðum borgarbúa.

Widodo, stundum kallaður Jokowi, er svo að segja fyrsti forseti landsins sem nýtir almannafé til uppbyggingar innviða landsins. Þar má t.d. nefna að undir hans stjórn var lestarkerfi loks komið á fót í höfuðborginni Jakarta, einni fjölmennustu borg heims, í apríl á þessu ári.

Widodo, stundum kallaður Jokowi, er svo að segja fyrsti forseti …
Widodo, stundum kallaður Jokowi, er svo að segja fyrsti forseti landsins sem nýtir almannafé til uppbyggingar innviða landsins. AFP

Það kom því fæstum óvart þegar Widodo var endurkjörinn forseti í forsetakosningunum í vor, enda almenningur himinlifandi með leiðtoga sem ekki nýtir þjóðarsjóðinn í eigin þágu.

Nú í haust tilkynnti Widodo svo um metnaðarfull, en jafnframt umdeild, áform sín um að færa höfuðborg Indónesíu frá Jakarta, þar sem íbúum fer hratt fjölgandi samhliða því að borgin sekkur að meðaltali um 15 sm árlega. Um helmingur borgarinnar er þegar undir sjávarmáli og er jafnvel viðbúið að borgin verði alfarið komin á kaf árið 2050.

Hækkandi vatnsborð, ör íbúafjölgun og mikil mengun

Jakarta er staðsett við sjóinn, í mýri og í gegnum hana renna 13 ár. Samhliða hækkandi sjávarmáli sökum loftslagsbreytinga eykst vatnsþörf með auknum fólksfjölda og því er meira af grunnvatni dregið upp á yfirborðið.

Loftmengun er þrálát í einni fjölmennustu borg heims, Jakarta.
Loftmengun er þrálát í einni fjölmennustu borg heims, Jakarta. AFP

Af þessum sökum, auk þrálátra umferðarteppa í borginni og örrar fjölgunar íbúa og þrálátrar mengunar, hefur forsetinn ákveðið að best sé að flytja höfuðborgina. Þar er þó ekki átt við að flytja eigi borgina sjálfa, heldur á að færa starfsemi stjórnvalda annað. Ekki er óþekkt að höfuðborgir séu færðar frá einni borg til annarrar, það hefur t.d. verið gert í Brasilíu, Kasakstan, Búrma og Ástralíu, en áætlun Widodo er ögn viðameiri: hann ætlar að byggja nýja borg á eyjunni Borneó, sem mun gegna hlutverki höfuðborgar Indónesíu.

Haldi íbúafjölgun Jakarta áfram með þessum hætti má ætla að hún verði orðin stærri en Tókíó, stærsta borg heims, innan tíu ára. Við þessu ætlar Widodo að sporna með því að byggja nýja borg á frumskógarsvæði á Borneó og flytja þangað alla starfsemi stjórnvalda, og laða þar með aðra þjónustu og fleiri íbúa til hinnar nýju borgar, sem enn hefur ekki hlotið nafn.

Áætlað er að kostnaðurinn við flutning höfuðborgarinnar muni nema 466 trilljónum rúpía, sem nemur um 34 milljörðum Bandaríkjadala eða 4 billjónum króna. En áætlun Widodo er ekki óumdeild. Uppbygging heillar borgar á svæði sem nú er frumskógur hefur auðsjáanlega mikil áhrif á náttúru svæðisins, sem nú einkennist m.a. af fjölbreyttu dýralífi og hafa náttúruverndarsinnar sem dæmi lýst áhyggjum af eyðileggingu kjörlendis órangútana, sem þegar eru í útrýmingarhættu.

Færi vandamál höfuðborgarinnar frá einum stað til annars

Landsvæðið, þar sem borgin á að rísa, er þó alls ekki með öllu ósnortið, heldur hefur stór hluti skógarins orðið skógarhöggi að bráð undanfarin ár auk þess sem þar er fjöldi pálmaolíuplantekra. Umhverfisverndarsamtök hafa stórar áhyggjur af því að skógeyðing muni aukast enn meira vegna uppbyggingar borgar á svæðinu.

Stjórn Widodo hefur þó lofað því að yfir helmingur borgarinnar verði lagður undir græn svæði og hefur ráðherra þróunarmála Indónesíu, Bambang Brodjonegoro, kallað borgarhugmyndina „skógarborgina“. Náttúruverndarsinnar segja þó ekki nægja að tryggja græn svæði innan borgarinnar, heldur verði einnig að tryggja vernd svæðisins sem hana umkringir.

Geri stjórnvöld ekki sitt til að takast á við undirliggjandi vandamál Jakarta, verði vandamál höfuðborgarinnar ekki leyst heldur einungis færð á milli staða.

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun BBC

Umfjöllun Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert