Hurð nærri hælum

Skólabíllinn hvílir í fangi trjáa við vegkantinn í Verdal sem …
Skólabíllinn hvílir í fangi trjáa við vegkantinn í Verdal sem hindruðu að hann félli niður þverhnípta brekku fyrir neðan. Öll 47 skólabörnin notuðu öryggisbelti og urðu engin meiðsl umfram smáskrámur. Ljósmynd/Tor Ole Ree/Innherred

Þegar skólastrætisvagninn í Verdal í Þrændalögum í Noregi var á leið upp brekku í Mogrenda þar í bænum um þrjúleytið í dag að norskum tíma, með 47 skólabörn á heimleið, tók ökuferðin óvænta stefnu. Vagninn hafði það ekki síðustu metrana og tók að renna aftur á bak niður brekkuna í Mogrenda sem er aðeins spölkorn frá Stiklastöðum þar sem Ólafur helgi Noregskonungur féll í bardaga sumarið 1030 sem við þann stað er kenndur.

Vagnstjórinn fékk ekki rönd við reist og fór svo að vagninn rann út af veginum og valt út fyrir hann þar sem hann lenti til allra heilla í faðmi trjáa við vegkantinn og staðnæmdist þar. Ellegar hefði líklega illa farið þar sem þverhnípt brekka tekur við utan vegarins.

Lögregla, slökkvi- og sjúkralið þessa 15.000 íbúa sveitarfélags brugðu skjótt við og mættu á vettvang þar sem ekki þótti annað tækt en að skera úr öftustu rúðu þeirrar hliðar vagnsins sem upp sneri með áhöldum tækjabíls slökkviliðsins og bjarga ungviðinu og ökumanni þá leiðina úr prísundinni.

Öll börnin voru í öryggisbeltum

Einhver barnanna hlutu minni háttar áverka svo úr blæddi en ekkert alvarlegt heilsutjón varð þó enda voru allir farþegar skólavagnsins í öryggisbeltum. Börnum og ökumanni var komið í nokkur nærliggjandi hús í nágrenninu þar til annar vagn kom á vettvang og sótti þau barnanna sem foreldrar og forráðamenn höfðu ekki þegar sótt.

Vetur konungur hefur heilsað Norðmönnum undanfarið og eru viðvaranir í ýmsum litum tíðar frá veðurstofunni, ófærð á fjallvegum og var víða spáð 30 til 50 sentimetra djúpum snjó fyrir helgi þrátt fyrir að nýliðinn nóvembermánuður hafi verið sá úrkomuminnsti í 119 ár í Vestur-Noregi svo skammt er öfganna á milli.

Innherred

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert