Ók á 12 ára dreng og stakk af

Harley Watson, 12 ára nemandi við Debden Park-gagnfræðiskólann í Loughton …
Harley Watson, 12 ára nemandi við Debden Park-gagnfræðiskólann í Loughton á Englandi, lést þegar ekið var á hann fyrir utan skólann í gær. Ökumaðurinn stakk af. Ljósmynd/Instagram

12 ára drengur lést þegar ekið var á hann fyrir utan grunnskóla í bænum Lougton í Essex á Englandi. Ökumaður bílsins stakk af eftir ákeyrsluna en 51 árs karlmaður er í haldi lögreglu, grunaður um morðið á drengnum, sem hét Harley Watson. 

Ökumaðurinn er sömuleiðis grunaður um morðtilræði en fjórir unglingar, sem eru nemendur við skólann, og 23 ára kona slösuðust þegar maðurinn ók á þau. 

„Hugur okkar er hjá fjölskyldunni og þeim sem eiga um sárt að binda,“ segir Helen Gascoyne, yfirkennari í skólanum. Watson er lýst sem hugljúfum dreng sem var vel liðinn af nemendum og starfsfólki skólans. 

Ekið var á ungmennin í gær en skólinn verður opinn í dag og gefst nemendum kostur á að leita sér áfallahjálpar hjá ráðgjafa á vegum skólans. 

Móðir 15 ára drengs sem varð fyrir bílnum segir son sinn vera í áfalli og með skrámur og marbletti. „Hann man eftir því þegar bíllinn nálgaðist hann, hann man eftir að hafa orðið fyrir bílnum, en þetta er allt í móðu. Hann fékk höfuðhögg og ég held að hann hafi misst meðvitund um tíma,“ segir hún. 

Lögreglan í Essex er með málið til rannsóknar og hefur lýst eftir silfurlituðum Ford Ka sem er líklega skemmdur að framanverðu.

Frétt BBC

mbl.is