Vilja senda Írönum skýr skilaboð

Íranski herforinginn Qasem Soleimani var veginn í nótt þegar bandarískir …
Íranski herforinginn Qasem Soleimani var veginn í nótt þegar bandarískir drónar réðust á bílalest hans í Bagdad, höfuðborg Íraks. AFP

„Mér finnst hafa legið talsvert í loftinu í nokkurn tíma að það gæti komið til slíkra aðgerða af hálfu Bandaríkjamanna,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is vegna vígs íranska herforingjans Qasem Soleimani sem var af mörgum talinn næstáhrifamesti maður Írans. Soleimani féll í drónaárás Bandaríkjamanna á bílalest hans í Bagdad, höfuðborg Íraks, í nótt.

Þannig hafi Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, rekið mjög harða stefnu gagnvart Íran. Þó ekki sé hægt að fullyrða að það vaki fyrir Trump þá sé það út af fyrir sig ekki verra fyrir forsetann að lenda í skærum við Íran og hafa óvin til þess að kljást við í aðdraganda forsetakosninganna sem fara fram í Bandaríkjunum næsta haust.

„Mér hefur fundist undanfarin misseri að Trump væri einfaldlega að bíða eftir tækifæri,“ segir Baldur. Það tengist ekki síst afskiptasemi Íranskra stjórnvalda af málefnum ýmissa landa í Miðausturlöndum og tilraunum þeirra til þess að verða leiðandi afl í þeim heimshluta sem farið hafi mjög fyrir brjóstið á Bandaríkjamönnum og helstu bandamönnum þeirra á svæðinu eins og Sádi-Arabíu. Einkum málefnum Jemens, Íraks og Sýrlands.

Deila Bandaríkjanna og Írans á nýtt stig

„Ég hygg að þetta snúist miklu frekar um þá langtímastefnu Bandaríkjanna, sé hægt að tala um langtímastefnu núverandi ríkisstjórnar landsins, að reyna að setja Írönum stólinn fyrir dyrnar hvað þetta varðar og senda þeim skýr skilaboð um að þessi afskiptasemi verði ekki liðin. Þá bæði á hinu pólitíska sviði og hinu hernaðarlega. Því Íranir hafa ekki hikað við að beita hernaðarmætti sínum í Miðausturlöndum þegar þeim hefur þótt það henta.“

Bandaríkjastjórn hafi verið að reyna að senda Írönum slík skilaboð til þessa með öðrum aðferðum en beinum hernaðaraðgerðum. „Þannig að nú má því kannski segja að deila Bandaríkjanna og Írans sé komin á nýtt stig þegar bandarísk stjórnvöld eru einfaldlega farin að taka af lífi háttsetta íranska herforingja, einstaklinga í innsta valdakjarnanum í Íran,“ segir Baldur. Farið sé að reyna á þolinmæði Trumps í þessum efnum.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Helstu bandamenn Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum, Sádi-Arabar, eru að sama skapi orðnir langþreyttir á afskiptasemi íranskra stjórnvalda. Þessi tvö ríki hafa verið að berjast um að verða forysturíki þessa heimshluta,“ segir Baldur. Hætt sé við því að Íranir bregðist við víginu á Soleimani af hörku. Hugsanlega með árásum á bækistöðvar Bandaríkjamanna á svæðinu. Komi til þess gæti það kallað á gagnárásir bandarískra stjórnvalda.

„Þetta gæti þannig orðið eins og snjóbolti sem rennur niður brekku og hleður utan á sig. Það er auðvitað hættan. Spurningin sem maður veltir fyrir sér núna í morgunsárið er hver geti mögulega miðlað málum. Hugsanlega einhver ríki í Miðausturlöndum eða Evrópu. Til þess að þessar deilur leiði ekki að lokum hreinlega til stríðs á milli Bandaríkjanna og Írans,“ segir Baldur. Hann segist þó telja að hvorugur aðilinn vilji stríð.

Hafa ekki hagsmuni af beinum stríðsátökum

„Það væri ekki í takt við stefnu Trumps að til stríðs kæmi enda hefur hann viljað draga úr viðveru Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum og þátttökum þeirra í beinum stríðsátökum á jörðu niðri,“ segir Baldur. Deilurnar á milli Bandaríkjanna og Írans hafi hins vegar verið að stigmagnast í raun hægt og bítandi. Vísar hann þar aftur til snjóboltans og brekkunnar.

„Síðan getur þetta líka leitt til aukinna hryðjuverkaárása á Vesturlöndum af hálfu bandamanna Írana, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða hópa, ef menn halda ekki að sér höndum,“ segir Baldur. Möguleg viðbrögð Írana þurfi þannig ekki að vera í þeirra eigin nafni. Þeir hafi þegar beitt þeirri aðferð að styðja hópa sem barist hafa gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra til dæmis í Jemen og Írak.

„Það er þannig hætta á frekari stigmögnun en ég held samt að báðir aðilar muni reyna að halda að sér höndum þannig að þetta leiði ekki til beinna stríðsátaka á milli landanna. Hvorugur aðilinn hefur hagsmuni af því að lenda í þannig stríði. Ég hygg að menn muni leita allra leiða til þess að ekki komi til þess þó það geti orðið áframhaldandi skærur á milli þessara ríkja eða hópa sem styðja þá,“ segir Baldur að lokum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði drónaárásina á bílalestina.
Donald Trump Bandaríkjaforseti fyrirskipaði drónaárásina á bílalestina. AFP
mbl.is