Fyrsta smit manna á milli í Evrópu

Fyrsta smit kórónaveirunnar manna á milli á evrópskri grundu hefur …
Fyrsta smit kórónaveirunnar manna á milli á evrópskri grundu hefur verið staðfest, en kínversk kona sem kom til Þýskalands í vinnuferð smitaði þarlendan samstarfsmann sinn. Á myndinni sést vegfarandi á ferð í Tókýó í Japan. AFP

Þýskur maður sem greinst hefur með kórónavírusinn hefur ekki verið á ferð um Kína nýlega, heldur smitaðist hann í Þýskalandi af kínverskri samstarfskonu sinni, sem var þar í vinnuferð. Þetta segja heilbrigðisyfirvöld í Bæjaralandi, en um er að ræða fyrsta smitið sem á sér stað manna á milli í Evrópu og einnig fyrsta smitið sem greinist í Þýskalandi.

Fram kemur í frétt AFP að kínverska konan, sem hélt fyrirlestur á skrifstofum bílapartafyrirtækisins Webasto í Stockdorf í Bæjaralandi, hafi byrjað að finna fyrir veikindum í fluginu á leiðinni heim til sín 23. janúar. Hún hafði nýlega farið til borgarinnar Wuhan að heimsækja foreldra sína.

Ástand þýska mannsins er sagt gott, en hann greindist með veiruna í gærkvöldi og er í einangrun á spítala. Um fjörutíu manns sem voru í samskiptum við kínversku konuna eða þýska manninn hafa verið kölluð inn til læknisskoðunar í dag.

Bílapartafyrirtækið Webasto, sem er með starfsemi bæði í Kína og Þýskalandi, ætlar ekki að senda starfsfólk sitt til eða frá Kína að minnsta kosti næstu tvær vikurnar vegna smitsins.

mbl.is