Romney úthrópaður af flokksfélögum

Mitt Romney skráði sig í sögubækurnar með atkvæði sínu í …
Mitt Romney skráði sig í sögubækurnar með atkvæði sínu í gær. AFP

Mitt Romney, repúblikani og öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi, hefur verið harðlega gagnrýndur af flokksfélögum sínum eftir að hann greiddi atkvæði með því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, yrði sakfelldur fyrir misbeitingu valds. BBC greinir frá.

Romney hefur verið úthrópaður sem tapsár og leynidemókrati, meðal annars af forsetanum sjálfum, en hann tapaði í forvali fyrir forsetakosningar í Repúblikanaflokknum árið 2012.

Trump var sýknaður í öldungadeildinni í gær, en Romney var eini repúblikaninn sem greiddi atkvæði með sakfellingu. Með því skráði hann sig í sögubækurnar sem fyrsti bandaríski þingmaðurinn sem greiðir atkvæði með því að forseti úr eigin flokki víki úr embætti.

Áhrifafólk innan Repúblikanaflokksins hefur sagt að Romney eigi að hverfa úr flokknum. Einn lét hafa eftir sér að gerði hann það ekki sjálfur myndi myndi hann flytja til Utah, sem er kjördæmi Romney, og fara gegn honum í næstu kosningum.

Það eru þó ekki allir flokksfélagar Romney jafn gagnrýnir á gjörðir hans. Þingmaðurinn Mitch McConnell var til að mynda spurður hvort honum yrði úthýst úr flokknum. Hann svaraði því til að það væru engir hundakofar í flokknum. Mikilvægasta atkvæðið væri alltaf það næsta.

„For­set­inn er sek­ur um að mis­nota traust al­menn­ings á gróf­an hátt,“ sagði Rom­ney í ræðu sem hann hélt í öld­unga­deild­inni. „Það að spilla kosn­ing­um til að halda sér í embætti er mögu­lega mesta brot sem hægt er að fremja í embætti,“ sagði hann jafnframt.

mbl.is