112 fyrirtæki starfa í landtökubyggðum Ísraela

Samkvæmt alþjóðalögum er ólöglegt að stunda stunda starfsemi í landtökubyggðum …
Samkvæmt alþjóðalögum er ólöglegt að stunda stunda starfsemi í landtökubyggðum Ísraela. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út lista yfir 112 fyrirtæki sem starfa innan ísraelskra landtökubyggða, þeirra á meðal Airbnb, Booking.com og Tripadvisor, en samkvæmt alþjóðalögum er ólöglegt að stunda þar starfsemi.

Skýrslan er svar við ákalli mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um gagnasafn með upplýsingum um öll þau fyrirtæki sem stunda hvers kyns starfsemi innan ísraelskra landtökubyggða á landsvæði Palestínu.

Réttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir listann ekki eiga að vera neins konar réttarfarslega úrlausn, en Ísraelar hafa hins vegar áhyggjur af því að birting listans gæti leitt til þess að fyrirtæki sem stundi viðskipti í landtökubyggðunum verði sniðgengin. 

Útgáfa listans hefur tafist í um þrjú ár, en rannsóknarvinna vegna hans er sögð hafa verið mjög ítarleg. Yfir 300 fyrirtæki voru skoðuð, en að endingu þykir rökréttur grunur um að 112 fyrirtæki hafi starfsemi í landtökubyggðunum.

Samkvæmt skýrslu SÞ hafa 94 fyrirtækjanna á listanum höfuðstöðvar sínar í Ísrael.

mbl.is