Fækkar í hópi frambjóðenda

Tveir frambjóðendur í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2020 hafa dregið sig úr keppni eftir ósigra í tveimur fyrstu ríkjunum, Iowa og New Hampshire. 

Andrew Yang og Michael Bennett hafa báðir staðfest að þeir muni ekki halda áfram að etja kappi um að verða forsetaframbjóðandi demókrata. Þá mátti heyra á ræðu frambjóðandans Deval Patrick að ekki væri langt í að hann legði upp laupana, að því er segir í frétt CNN.

Bernie Sanders stóð uppi sem sigurvegari í New Hampshire í gær, en fast á hæla honum kom Pete Buttigieg, sem óvænt sigraði Sanders með einu prósentustigi í Iowa í síðustu viku. Þá kom árangur Amy Klobuchar mörgum á óvart í New Hampshire, en hún stóð sig vel í rökræðum frambjóðenda í síðustu viku, sem skilaði henni þriðja sæti í New Hampshire.

Hve lengi geta Warren og Biden haldið áfram?

Hvorki Elizabeth Warren né Joe Biden náðu þeim 15% atkvæða sem þarf til að tryggja þeim ríkiskjörmenn. Úrslit forvalsins í þessum fyrstu tveimur ríkjum hafa verið þeim báðum mikil vonbrigði og hafa þegar haft talsverð áhrif á fjáröflun kosningaherferða þeirra.

Við sigrum saman, sagði Warren.
Við sigrum saman, sagði Warren. AFP

Haldi ósigurganga þeirra áfram þykir ljóst að sjóðir þeirra verði bráðum uppurnir, en bæði voru þau farin að spara í auglýsingakaupum eftir forvalið í Iowa, og þá liggur fyrir að þau geti ekki haldið áfram baráttunni mikið lengur.

Biden sleppti því að ávarpa fylgismenn sína eftir að úrslit lágu fyrir í New Hampshire í gær og flaug beinustu leið til South Carolina, þrátt fyrir að næst fari forval fram í Nevada, en South Carolina er það ríki þar sem Biden á hvað mesta möguleika á að komast aftur á lista yfir fremstu frambjóðendur.

Við sigrum saman

Warren notaði ávarp sitt hins vegar til að ávíta Biden fyrir nýlega auglýsingaherferð þar sem varaforsetinn fyrrverandi gerði atlögu að þeim Sanders og Buttigieg. Sagði hún að svona harkalegar aðferðir virkuðu aðeins fyrir þá sem væri sama þó að flokkur þeirra stæði eftir sem ein rjúkandi rúst, svo lengi sem þeir sjálfir stæðu uppi sem sigurvegarar.

„Þær gætu virkað ef þú heldur að þú sért einn með öll réttu svörin og að þú sért lausnin við öllum okkar vandamálum. En ef við ætlum að sigra Donald Trump í nóvember, þá þurfum við mikla kjörsókn hjá flokksfólki okkar, og til þess að það takist þurfum við frambjóðanda sem hvað flestir geta fylgt sér að baki. Við höfum ekki efni á að skipa okkur í hópa. Við höfum ekki efni á að tapa sameiginlegum kröftum okkar. Við sigrum saman.“ 

Umfjöllun NYT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert