Leita að 2.700 farþegum

AFP

Áströlsk yfirvöld hafa beðið 2.700 farþega sem fóru frá borði skemmtiferðaskips í Sydney til að fara í sóttkví og hafa samband við heilbrigðisyfirvöld. Er þetta gert vegna fjögurra  sem voru um borð og hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni COVID-19.

Yfirvöld í Nýja Suður-Wales segja að þau hafi metið nýsjálenska skemmtiferðaskipið Ruby Princess hættulítið og leyft farþegum að fara frá borði í Sydney í gær. Síðar hafi komið í ljós að þrír farþegar og einn úr 1.100 manna áhöfn skipsins væru með kórónuveiruna.

Skipið var á leiðinni frá Sydney til Nýja-Sjálands þegar farþegarnir veiktust og tekin voru sýni úr 13 um borð vegna mögulegrar flensu. Ákveðið var að kanna hvort kórónuveira væri í sýnunum og þá kom í ljós að fjórir voru með hana. 

„Þetta veldur okkur eðlilega áhyggjum,“ segir heilbrigðisráðherra Nýja Suður-Wales, Brad Hazzard. Hann segir að mögulega séu fleiri smitaðir. Netföng og símanúmer allra farþega eru til og er verið að hafa samband við þá alla. Skemmtiferðaskipið er nú fyrir utan strönd Sydney og er 1.100 manna áhöfn um borð, þar á meðal sá sem reyndist smitaður. 

Allir ferðamenn sem snúa heim til Ástralíu eru sendir í sóttkví í 14 daga en jafnvel er talið að einhverjir farþeganna hafi ekki vitað af smitinu um borð. 

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur frestað afgreiðslu fjárlaga þangað til í október vegna þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum. Hann hefur einnig hert reglur um fjarlægð milli fólks sem kemur saman í litlum hópum. Er því nú gert að halda tveggja metra fjarlægð sín á milli. Allir starfsmenn á heimilum yfir eldri borgara þurfa að fara í sýnatöku og eins er búið að herða mjög umferð inn og út af svæðum frumbyggja. Flugfélagið Qantas mun fljúga áfram frá London, Hong Kong og Auckland til að gefa Áströlum möguleika á að snúa heim.

mbl.is