Fór fótgangandi á milli landa eftir tóbaki

Við landamærin í La Jonquera.
Við landamærin í La Jonquera. AFP

Manni sem reyndi að ganga frá Frakklandi til Spánar í þeirri von að geta keypt ódýrar sígarettur þar var bjargað úr háska í Pýreneafjöllunum — og sektaður fyrir að hafa brotið reglur um útgöngubann nema til þess að kaupa nauðsynjar.

Maðurinn lagði af stað frá borginni Perpignan í Suður-Frakklandi í gær og ætlaði til LaJonquera á Spáni en var stöðvaður við vegartálma lögreglunnar. Í stað þess að snúa heim tóbakslaus ákvað hann að reyna að fara fótgangandi yfir fjallgarðinn sem aðskilur löndin tvö.

AFP

„Hann féll í á, festist í þyrnóttum runnum, týndist og endaði með því að óska eftir aðstoð,“ segir félagi í fjallabjörgunardeild lögreglunnar í Pyrenees-Orientales-héraði. Þyrla var send eftir manninum sem var örmagna, skjálfandi, með kvef og villtur.

Eftir að hafa verið skilað heilum á húfi til síns heima fékk hann 135 evra sekt fyrir að hafa brotið reglur sem gilda um útgöngubann í Frakklandi. Þar mega íbúar aðeins yfirgefa heimili sitt með útfyllt eyðublað um nauðsyn þess að fara að heiman. 

„Við minnum ykkur á þetta einu sinni enn — haldið ykkur heima,“ segir í færslu lögreglunnar á Twitter.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert