Fundu kuml undir gólfinu

Steinhleðslan sem blasti við þegar Mariann Kristiansen og maður hennar …
Steinhleðslan sem blasti við þegar Mariann Kristiansen og maður hennar hugðust koma fyrir einangrun undir gólfi ættaróðalsins sem langafi hennar byggði árið 1914. Telja fornleifafræðingar hér fundið fornt kuml og verða við gröft á svæðinu út vikuna. Ljósmynd/Nordland fylkeskommune

Mariann Kristiansen og maður hennar, sem búsett eru í Saltstraumen, skammt frá Bodø í Nordland-fylki í Noregi, gerðu óvænta uppgötvun í síðustu viku þegar þau hugðust koma fyrir einangrun undir gólfinu í gamla ættaróðalinu sem langafi hennar byggði árið 1914.

Undir gólfinu leyndist hringlaga steinhleðsla og innan hennar sáu þau hjónin eitthvað sem glampaði á. „Við héldum fyrst að þetta væri hjól af leikfangabíl,“ segir Kristiansen, en svo reyndist þó ekki vera. Gripurinn var perla með gati í miðju fyrir festi, svokölluð sörvisperla en sörvi táknar festi eða hálsmen svo sem víða má sjá í Íslendingasögum, til dæmis í kvenkenningum dróttkvæða, meðal annars í vísum Kormáks Ögmundarsonar í sögu hans:

(seinni helmingur)

Mér kveðk heldr of Hildi

hrannbliks an þér miklu

svefnfátt. Sörva Gefnar

sakna munk, ef ek vakna.

Sörvisperlur fundust til að mynda í hellinum Víðgelmi í Hallmundarhrauni árið 1993. Voru þó ekki öll kurl komin til grafar í Saltstraumen, bókstaflega, með fundi perlunnar því þau hjónin fundu myndarlegt axarblað auk ýmissa gripa annarra úr járni.

Er hér var komið sögu afréðu þau að hafa samband við fylkisskrifstofuna og tilkynna fundinn og komu fornleifafræðingar frá Minjasafninu í Tromsø á vettvang daginn eftir.

Telja gröf frá yngri járnöld

Í dag hefst gröftur í því sem talið er vera kuml, eða gröf að fornum sið, undir gólfi Kristiansen auk þess sem fornleifafræðingar munu kanna jarðveginn í kringum húsið í leit að fleiri fornminjum. Ætla fræðingarnir sér fimm daga til verksins.

Vígaleg öxi úr járni leyndist einnig í kumlinu auk fleiri …
Vígaleg öxi úr járni leyndist einnig í kumlinu auk fleiri gripa úr járni sem fornleifafræðingar frá Minjasafninu í Tromsø rannsaka nú. Nokkuð hefur verið um fornleifafundi í Norður-Noregi síðustu misseri, bæjarstæði forn, gömul mynt og fleira. Ljósmynd/Úr einkasafni

Martinus Hauglid fornleifafræðingur hefur unnið að skýrslu um þá muni sem fundist hafa og segir norska ríkisútvarpinu NRK að hér sé líklega um gröf frá yngri járnöld, 550 – 1050 e. Kr., að ræða sem húsið hafi á sínum tíma verið byggt ofan á og segir það mikið gleðiefni í nafni fræðanna að íbúar hússins hafi gert þessa merkilegu uppgötvun.

Sörvisperlan sem fannst í kumlinu. Slíkar perlur voru með gati …
Sörvisperlan sem fannst í kumlinu. Slíkar perlur voru með gati í miðju fyrir festi eða sörva eins og festar og men kölluðust til forna svo sem ráða má af Íslendingasögum og kvenkenningum í dróttkvæðum, svo sem kenningunni sörva Gefn hjá Kormáki Ögmundarsyni skáldi, en saga hans geymir 84 dróttkvæði, mörg hver listilega ort, og er sagan augljóslega mun yngri, skrifuð í kringum kveðskap Kormáks. Ljósmynd/Nordland fylkeskommune

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sögulegir munir finnast í Norður-Noregi, fyrr á þessu ári fannst tæplega 2000 ára gömul rómversk mynt í Dønna sem skartaði vangamynd af Markúsi Árelíusi sem var Rómarkeisari árin 161 – 180 og í fyrravor uppgötvuðu fornleifafræðingar heilt bæjarstæði með tólf húsum og grafreitum í Bindal í Nordland sem talið er vera frá árabilinu 200 – 800. Þeim fundi líkti Trine Johnson fornleifafræðingur við að eignast barn þegar hún ræddi málið við NRK.

NRK

NRK II (myntin sem fannst í Dønna)

NRK III (bæjarstæðið í Bindal)

mbl.is