Trump frestar „úreltum“ G7-fundi

Angela Merkel Þýskalandskanslari hafði áður gefið út að hún gæti …
Angela Merkel Þýskalandskanslari hafði áður gefið út að hún gæti ekki þekkst fundarboð Bandaríkjaforseta vegna aðstæðna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið út að hann hyggist fresta G7-fundi þessa árs og bjóða leiðtogum annarra ríkja að mæta til fundarins þegar af honum verður. Segir hann fundarfyrirkomulagið „úrelt“. „Mér finnst ekki að fundurinn endurspegli það sem er að gerast í heiminum. Þetta er mjög úreltur hópur ríkja,“ sagði Trump er hann ávarpaði blaðamenn eftir geimskot SpaceX og Nasa í Kennedy-skotstöðinni í gær. 

„Við viljum Ástralíu, við viljum Indland, við viljum Suður-Kóreu. Og hvað fáum við þá? Flottan hóp af ríkjum,“ sagði forsetinn og bætti við að hann vildi einnig fá Rússland að borðinu til að ræða framtíðarsamband við Kínverja.

G7-hópurinn samanstendur af sjö af helstu iðnríkjum heims, Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Japan, en auk þess tekur Evrópusambandið þátt í fundum þess sem jafnan eru haldnir árlega og til skiptis í ríkjunum sjö. Í ár var röðin komin að Bandaríkjunum og stóð til að fundurinn yrði haldinn í Maryland-ríki í Bandaríkjunum í mars áður en honum var frestað vegna veiru. 

Í síðustu viku sagði Trump að mögulegt væri að halda lítinn fund leiðtoga ríkjanna í Hvíta húsinu og hugsanlega á aðsetri Bandaríkjaforseta að Camp David í Maryland, en Angela Merkel Þýskalandskanslari hafnaði hugmyndinni og sagðist ekki geta tekið þátt vegna aðstæðna. Sömu sögu er að segja af Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem sagðist þó vonast til að hægt væri að funda í náinni framtíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert