Boris ætlar að koma Brexit-viðræðum í gang

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands ætlar að bretta upp ermarnar og …
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands ætlar að bretta upp ermarnar og koma Brexit-viðræðum aftur af stað. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að freista þess í dag að koma Brexit-samningaviðræðunum aftur á ról með því að funda með leiðtogum Evrópusambandsins í gegnum fjarfundabúnað.

Talið er að hann muni funda með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Charles Micheal, forseta leiðtogaráðs ESB. Verður það í fyrsta skipti sem Johnson tekur þátt í formlegum samningaviðræðum síðan þær hófust í mars. Bretland gekk úr Evrópusambandinu 31. janúar eftir 47 ára dvöl.

Ekki er talið að fundurinn komi til með að bera mikinn árangur en heimildir herma að leiðtogar ESB ætli að vera á varðbergi gagnvart „óútreiknanlegum“ Boris. Samningaviðræður Bretlands og ESB hafa farið fram í fjórum lotum og snúast þær meðal annars um hvernig samstarfið verður eftir að Bretland yfirgefur innri markað ESB um áramótin. Árangurinn hefur verið lítill sem enginn hingað til.

Kórónuveirufaraldurinn hefur gert samninganefndum Bretlands og ESB erfitt fyrir og hafa Micheal Barnier, formaður samninganefndar ESB, og David Frost, sem fer fyrir samninganefnd Breta, ekki getað fundað að ráði síðan faraldurinn hófst.

„Engar viðræður hafa átt sér stað, en menn hafa skipst á skoðunum. Þetta er taktísk barátta á þessu stigi,“ segir heimildarmaður innan ESB.

Breska ríkisstjórnin tilkynnti formlega á föstudaginn að hún hygðist ekki sækja um framlengingu á aðlögunartímabilinu, sem hún hefði mátt gera samkvæmt útgöngusamningum sem var undirritaður á síðasta ári.

mbl.is