Notar gullgrímu til að verjast veirunni

Shankar Kurhade með gullgrímuna, sem er sem betur fer með …
Shankar Kurhade með gullgrímuna, sem er sem betur fer með götum á, svo hann geti andað með hana. AFP

Indverskur maður borgaði um 4 þúsund Bandaríkjadali, sem samsvarar rúmlega 550 þúsund krónum, fyrir sérsmíðaða andlitsgrímu úr gulli sem á að hjálpa til við að koma í veg fyrir að hann smitist af kórónuveirunni.

Það tók gullsmiði átta daga að smíða grímuna sem vegur 60 grömm að sögn Shankar Kurhade, viðskiptamanns frá borginni Pune í Indlandi.

„Þetta er þunn gríma og hún er búin pínulitlum holum sem hjálpa mér að anda. Ég er ekki viss um hvort hún komi í veg fyrir að ég smitist af kórónuveirunni en ég geri einnig aðrar ráðstafanir,“ sagði Shankar við fréttaveituna AFP.

Kurhade segist iðulega ganga um með um kíló af gullskartgripum á sér þegar hann fer út meðal almennings. Hann á meðal annars armband og hálsmen úr gulli sem og fimm gullhringi, fyrir hvern fingur á hægri hendi.

Kvaðst Kurhade hafa fengið hugmyndina að gullgrímunni þegar hann sá frétt um mann sem notaði silfurgrímu. „Fólk biður mig um myndir með sér. Það vekur aðdáun fólks þegar það sér mig með gullgrímu á markaðnum,“ bætti hann við.

Yfirvöld í Indlandi hafa gert það að skyldu að ganga um með andlitsgrímu á almannafæri til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu. Staðfest smit eru 650 þúsund talsins og andlát tæplega 19 þúsund. Ekki fylgir sögunni hvort gullgríman uppfyllir öryggiskröfur.

mbl.is