Búist við að flugfarþegum fækki um 60%

AFP

Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) segja að flugfarþegum í Evrópu muni fækka um 60% á þessu ári borið saman við árið 2019. Mikil óvissa sé enn ríkjandi og óvíst hvenær fluggeirinn muni aftur taka við sér. 

IATA segir að þrátt fyrir að flugumferð í Evrópu hafi færst í aukana undanfarna mánuði, eða frá því botninum var náð í apríl, þá sé flugumferð ríflega 50% minni miðað við sama tímabil í fyrra. Munar þarna um 705 milljónir farþegaferðir. 

AFP

Samtökin segja ennfremur, að til skamms tíma ríki enn mikil óvissa hvað varðar aðra bylgju kórónuveirufaraldursins og hvaða áhrif hún komi til með að hafa á efnahagslíf á heimsvísu. 

IATA telur að rúmlega sjö milljónir starfa, sem tengjast flugi, m.a. í ferðamannaþjónustu, sé nú í hættu. 

Talið er að í Frakklandi, Bretlandi og í Þýskalandi hafi flug dregist saman um 65% og um 63% á Spáni og á Ítalíu.

Útlit er fyrir að Norðmenn muni finna einna mest fyrir minni flugumferð á þessu ári, en þar er búist við 79% samdrætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert