Kynna hertar aðgerðir í Danmörku

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Danska ríkisstjórnin hefur kynnt hertari sóttvarnaaðgerðir í Kaupmannahöfn og nágrenni til að bregðast við aukinni útbreiðslu kórónuveirunnar. Er þetta í annað sinn á rúmri viku sem aðgerðirnar eru hertar.

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað hratt í Danmörku undanfarna daga. 334 smit greindust í gær, þar af 74 í Kaupmannahöfn og eru þar ótalin nágrannasveitarfélögin. Þá eru 55 inniliggjandi á spítala vegna veirunnar í Danmörku, þar af þrír á gjörgæslu.

Nýgengi smita, fjöldi nýrra smita síðustu tvær vikur á hverja 100.000 íbúa, mælist nú 52,4 en til samanburðar er hlutfallið 16,2 á Íslandi (13,6 án landamæraskimunar) og 30,4 í Svíþjóð. Ekki er langt síðan tölurnar frá Danmörku voru á svipuðu reiki og hér á landi.

Gert að loka klukkan 22

Meðal hinna nýju reglna eru að veitingastaðir, kaffihús og barir þurfa að loka dyrum sínum klukkan 22 á kvöldin. Hingað til hafa þessir staðir mátt vera opnir til miðnættis, en aðeins er rúm vika frá því hafa mátti opið til klukkan 2 á nóttunni. Grímuskylda verður sömuleiðis innleidd á þessum stöðum, en þó aðeins á meðan fólk stendur. Um leið og fólk hefur komið sér fyrir í sæti má taka grímuna af sér.

Lögregla mun einnig auka eftirfylgni með því að eins metra nándarregla sé virt, en óhætt er að segja að starfsfólk og gestir hafi látið regluna í léttu rúmi liggja síðustu vikur. Þá mun lögregla fá leyfi til að slíta einkasamkvæmum eftir klukkan 22, sé sóttvarnareglum ekki fylgt.

Áhorfendafjöldi á leikjum í dönsku úrvalsdeildinni verður enn fremur takmarkaður við 500 manns á höfuðborgarsvæðinu. Nýtt tímabil hófst í síðustu viku.

Hinar hertu reglur taka gildi á morgun, fimmtudaginn 17. september, og gilda að óbreyttu til 1. október. Þá hafa aðrar reglur sem tóku gildi í síðustu viku, svo sem 50 manna samkomubann á sama svæði, verið framlengdar til 1. október.

Altinget

mbl.is