Trump sagði faraldrinum vera að ljúka

Trump og Biden á samsettri mynd. Myndirnar af þeim voru …
Trump og Biden á samsettri mynd. Myndirnar af þeim voru teknar af þeim á viðburðunum tveimur í nótt. AFP

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, hélt áfram gagnrýni sinni á Donald Trump vegna viðbragða hans við kórónuveirunni. Á sjónvarpsstöðinni ABC sagði hann Bandaríkjaforsetann hafa gert „ekki neitt“ til að binda enda á faraldurinn. Á sama tíma vísaði Trump allri slíkri gagnrýni á bug á sjónvarpsstöðinni NBC.

Viðburðirnir voru haldnir á mismunandi stöðum með áhorfendum í sal og var þeim sjónvarpað á sama tíma á stöðvunum tveimur. Biden var lágstemmdur, sýndi hluttekningu og svaraði áhorfendum vandlega á meðan Trump varðist mjög og var oft á tíðum æstur þegar hann var spurður út embættisverk sín.

Donald Trump í borginni Miami.
Donald Trump í borginni Miami. AFP

Sagðist ekkert vita um QAnon

Trump, sem er á eftir Biden í skoðanakönnunum fyrir kosningarnar 3. nóvember, var undir sérstökum þrýstingi þegar hann var spurður út í kórónuveiruna sem hefur orðið yfir 217 þúsund Bandaríkjamönnum að bana og valdið miklum efnahagsvanda. „Við erum alveg að verða komin fyrir hornið,“ sagði Trump bjartsýnn í borginni Miami, jafnvel þótt greindum smitum hafi fjölgað að undanförnu.

Þegar settur var á hann meiri þrýstingur af þáttarstjórnandanum varð hann fljótt pirraður, sérstaklega þegar hann var spurður út í hvers vegna hann hefði ekki fordæmt öfgasinnaða hægrihópa í landinu af krafti.

Hann vildi ekki fordæma QAnon, sem er hreyfing samsæriskenningasmiða sem segir að Trump eigi í leynilegu stríði við alþjóðleg, frjálslynd samtök barnaníðinga sem tilbiðji djöfulinn. „Ég veit ekkert um QAnon,“ sagði Trump, sem hrósaði þó hreyfingunni og sagði hana vera „mjög á móti barnaníði“.

Andrúmsloftið varð afslappaðra þegar Trump fékk röð þægilegra spurninga úr áhorfendasalnum. Klappað var í salnum eftir að einn þeirra sagði við Trump: „Þú hefur fallegt bros.“

AFP

Spurður út í skimun fyrir kappræðurnar

Trump var spurður hvort hann hefði farið í skimun við veirunni á sama degi og fyrstu kappræður hans og Bidens fóru fram. „Ég veit það ekki, ég man það ekki,“ sagði forsetinn, að því er CNN greindi frá.

Spurður aftur hvort hann hefði farið í skimun, rétt eins reglur um kappræður forseta kveða á um, sagði hann: „Líklega gerði ég það og ég fór í próf daginn áður.“

Enn og aftur var hann spurður og þá svaraði hann: „Kannski gerði ég það, kannski ekki.“

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

„Hann notar ekki einu sinni grímu"

Á sjónvarpsstöðinni ABC var Biden lágstemmdari og lofaði því að stuðla að því að sameina stjórnmálamenn í Washington. Hann hélt áfram að skjóta á Trump vegna viðbragða hans við útbreiðslu veirunnar.

„Staðan er þannig að yfir 210 þúsund manns hafa látist og hvað erum við að gera? Ekki neitt. Hann notar ekki einu sinni grímu,“ sagði Biden í borginni Fíladelfíu um Trump.

Biden hét því að bæta andrúmsloftið í landinu og draga úr sundrungu. Hann sagði það ekki ganga að halda óvildinni áfram og að breyta þyrfti samskiptamynstri fólks. „Ef ég verð kjörinn forseti verður það það fyrsta sem ég geri, og ég er ekki að grínast, að taka upp símann og hringja í þau og segja: „Við skulum ná saman.“

Sár þjóðarinnar þurfa að gróa,“ sagði hann og bætti við hann myndi ekki tala illa í garð nokkurs kynþáttar og að hann myndi ekki stuðla að sundrungu heldur sameiningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina