Nokkur vafasöm mál í einkalífi Jensens

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir það hafa verið rétta ákvörðun hjá Frank Jensen að segja af sér sem borgarstjóri Kaupmannahafnar og varaformaður Sósíaldemókrataflokksins í kjölfar umfjöllunar um kynferðislega áreitni. 

„Það hafa verið nokkur vafasöm mál í einkalífi Franks. Það hefur ekki verið hægt að komast yfir þau og þar með hafa þau komið í veg fyrir áframhaldandi þátttöku í pólitík,“ skrifar Frederiksen í færslu á Facebook. „Eins og öll samtöl verður þetta að eiga sér stað á eðlilegum forsendum. Það má ekki vera framsetning fjölmiðla sem ræður útkomu málsins,“ skrifar Frederiksen, sem sjálf er formaður Sósíaldemókrataflokksins.

Furðulegt, segði einhver, enda má telja næsta víst að Frank Jensen væri enn borgarstjóri Kaupmannahafnar ef ekki væri fyrir umfjöllun Jótlandspóstsins. Að minnsta kosti ein kvennanna sem saka hann um áreitni hafði þegar greint frá því innan flokksins.

Frank Jensen tilkynnti um afsögn sína á blaðamannafundi á Íslandsbryggju …
Frank Jensen tilkynnti um afsögn sína á blaðamannafundi á Íslandsbryggju í dag. AFP

Í færslunni talar Frederiksen um mikilvægi MeToo-hreyfingarinnar í dönsku samfélagi, en fer jafnan fögrum orðum um stjórnmálaferil Franks Jensens. Segir hún hann hafa verið góðan og iðinn varaformann Sósíaldemókrataflokksins. „Í meira en tíu ár hefur hann verið metnaðarfullur og framsýnn borgarstjóri höfuðborgarinnar [...] Ég hef ekkert út á hans pólitísku vinnu að setja. Síður en svo,“ segir Frederiksen.

Undir hans stjórn hafi Kaupmannahöfn vaxið og dafnað og sé nú nútímaleg og alþjóðleg borg með metnaðarfull loftslagsmarkmið. Borgarfulltrúinn Lars Weiss tekur nú við embætti yfirborgarstjóra tímabundið. Sá kemur einnig úr röðum Sósíaldemókrata líkt og allir yfirborgarstjórar frá því embættið var sett á stofn árið 1938.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert