Veldisvöxtur og hertar aðgerðir

Sjúkraflutningamenn sjást hér flytja sjúkling, sem er smitaður af Covid-19, …
Sjúkraflutningamenn sjást hér flytja sjúkling, sem er smitaður af Covid-19, á Gonesse-sjúkrahúsinu í norðurhluta Parísar. AFP

Nokkur ríki hertu í dag aðgerðir sínar til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Frakkar hafa t.d. framlengt gildandi útgöngubann og þá hafa yfirvöld í Belgíu gert slíkt hið sama. Tala látinna af völdum veirunnar í Þýskalandi fór yfir 10.000 og í Bandaríkjunum greindust yfir 80.000 smit á einum sólarhring. 

Yfirvöld í Brussel, höfuðborg Belgíu, ákváðu að lengja gildandi útgöngubann um klukkustund og í Póllandi greindist forseti landsins, Andrzej Duda, með veiruna. 

Hlúð að Covid-veikum manni á gjörgæsludeild á Casal Palocco-sjúkrahúsinu skammt …
Hlúð að Covid-veikum manni á gjörgæsludeild á Casal Palocco-sjúkrahúsinu skammt frá Róm á Ítalíu. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur varað við að veiran sé í veldisvexti sem geti ógnað starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. 

Ekki eru allir sáttir við hertar aðgerðir og margir orðnir langþreyttir á ástandinu. Í ítölsku borginni Napólí kom til átaka á milli lögreglu og mörg hundruð mótmælenda sem höfðu safnast saman.

Í Bandaríkjunum er faraldurinn og viðbrögð við honum eitt af kosningamálunum, en það styttist í forsetakosningarnar sem fara fram 3. nóvember. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði við stuðningsmenn sína í Flórída í dag að „við munum stöðva þennan faraldur hratt, þessa skelfilegu plágu“. 

Frá Blackpool á Englandi.
Frá Blackpool á Englandi. AFP

Joe Biden, forsetaframbjóðandi demókrata, sagðist ætla að sjá til þess að allir gætu fengið bóluefni og þá skipti engu hvort fólk væri sjúkratryggt eður ei. Biden sagði ennfremur að Trump hefði gefist upp á því að eiga við faraldurinn. 

Johns Hopkins-háskólinn í Bandaríkjunum greindi frá því í dag að 79.963 smit hefðu greinst í Bandaríkjunum á einum sólarhring, sem er nýtt met. Tölfræði yfir dauðsföll í landinu hafa aftur á móti haldist nokkuð stöðug, eða eru á bilinu 700 til 800 á dag. 

Alls hafa 223.000 látist af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum frá upphafi faraldursins. 

Þreyttur heilbrigðsstarfsmaður hvílir lúin bein á Casal Palocco-sjúkrahúsinu.
Þreyttur heilbrigðsstarfsmaður hvílir lúin bein á Casal Palocco-sjúkrahúsinu. AFP
mbl.is