„Það urðu greinileg vatnaskil”

AFP

„Þegar þetta var tilkynnt urðu greinileg vatnaskil,” segir Rafn Steingrímsson, íslendingur búsettur í Cincinnati í Ohio-ríki í Bandaríkjunum, um sigur Joe Bidens í forsetakosningunum vestanhafs.

„Þegar þetta var tilkynnt fór maður að sjá fólk keyra úti á götu og flauta flautum; fólk með fána út úr bílum; fólk sem var búið að líma skilti á bílana sína,” segir Rafn. Hann segir að fjölmargir séu í bolum og öðrum fatnaði merktum Biden og Harris, en hann hafði ekki séð neinn merktan Trump.

Svipmyndir frá Cincinnati.
Svipmyndir frá Cincinnati. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hafa öll atkvæði í Ohio verið talin, en þegar um 92% atkvæða hafa verið talin er Trump með sannfærandi forystu í fylkinu, eða 53,3%. Hins vegar, í Hamilton-sýslu, þar sem Cincinnati er staðsett, er Biden með töluverða forystu. Sömu sögu má segja á öðrum þéttbýlum svæðum í fylkinu, meðal annars í kringum Cleveland, Columbus og Dayton.

Cincinnati, eins og flestar aðrar borgir eru frjálslyndar og hliðhollar demókrötum,” segir Rafn. „Það á ekki bara við New York og Los Angeles. Ef þú ert í borg þá er stemmningin mjög góð.”

Svipmyndir frá Cincinnati.
Svipmyndir frá Cincinnati. Ljósmynd/Aðsend

Rafn segir að fagnaðarlæti brjótist út á um tíu mínútna fresti. Fólk hafi flykkst í almenningsgarða og á bari þegar úrslitin voru tilkynnt.

Hann segir að síðustu dagar hafi verið skrýtnir þar sem niðurstöður kosninganna lágu ekki fyrir fyrr en í dag. „Fólk hefur verið rosalega stressað yfir þessu,” segir Rafn. „Því mörgum finnst þetta vera rosalega afdrifarík kosning, sem þetta er.”

Svipmyndir frá Cincinnati.
Svipmyndir frá Cincinnati. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert