Barn lést af völdum Covid í Noregi

Gamla bygging Haukeland-sjúkrahússins í Bergen. Fyrsta barnið, sem lætur lífið …
Gamla bygging Haukeland-sjúkrahússins í Bergen. Fyrsta barnið, sem lætur lífið af völdum kórónuveirunnar í Noregi, lést á sjúkrahúsinu í gær, en það þjáðist af alvarlegum undirliggjandi sjúkdómi sem gerði það sérstaklega veikt fyrir veirunni. Ljósmynd/Wikipedia.org/Svein Harkestad

Barn lést í gær á Haukeland-sjúkrahúsinu í Bergen í Noregi af völdum Covid-19 en í tilkynningu frá sjúkrahúsinu kemur fram að barnið hafi þjáðst af undirliggjandi sjúkdómi sem gerði það sérstaklega veikt fyrir kórónuveirusmiti.

Stjórnendur sjúkrahússins verjast allra frekari frétta af málinu, svo sem af aldri barnsins og hver undirliggjandi sjúkdómurinn hafi verið, með vísan til persónuverndarsjónarmiða, en barnið er annað fórnarlamb kórónuveirunnar sem lætur lífið í aldurshópnum 0 – 39 ára í Noregi.

Andlát barnsins er fimmta dauðsfallið af völdum kórónuveiru á Haukeland-sjúkrahúsinu og það 44. í Bergen, en í gær náði tala látinna í Noregi 300 frá upphafi faraldursins.

Eitt það skelfilegasta sem við getum upplifað

„Hugur minn og samúð er hjá aðstandendunum sem sorgin og söknuðurinn þyngja nú,“ sagði Bent Høie heilbrigðisráðherra í samtali við NTB-fréttastofuna í gær, „að missa barn er eitt það skelfilegasta sem við mannfólkið getum upplifað.“

Erna Solberg forsætisráðherra sendi fjölskyldunni einnig innilegar samúðarkveðjur á ögurstundu og Camilla Stoltenberg, forstjóri Lýðheilsustofnunar Noregs, kvað fréttirnar ákaflega þungbærar. „Þessi tíðindi eru áminning um að börn geta líka orðið fórnarlömb kórónuveirunnar. Fyrst og fremst eru hugsanir mínar þó hjá barninu, fjölskyldunni og öðrum aðstandendum,“ sagði Stoltenberg við norska dagblaðið VG í gær.

„Barn, sem lagt var inn á Haukeland-sjúkrahúsið er látið af völdum sjúkdóms sem tengist Covid-19,“ hófst tilkynningin sem birtist á Twitter-svæði sjúkrahússins í gær. „Er þar um að ræða fyrsta kórónuveirutengda dauðsfall barns í Noregi. Barnið þjáðist af alvarlegum undirliggjandi sjúkdómi,“ kom þar enn fremur fram.

Bjørn Guldvog, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, sagði í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í gær að mikilvægt væri að taka þessum sorgaratburði af fullri alvöru. „Þetta sýnir okkur að alvarleg tilfelli geta komið upp hjá börnum og það er mikilvægt að við tökum því alvarlega þótt sem betur fer hafi það sýnt sig að veiran er í fæstum tilfellum háskaleg börnum,“ sagði forstöðumaðurinn.

NRK

VG

Aftenposten

ABC Nyheter

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina