Tvöfalda fjölda rúma fyrir Covid-smitaða

Björn Zoëga.
Björn Zoëga. mbl.is/Ómar

Unnið er að því að tvöfalda rúmafjölda fyrir sjúklinga með kórónuveiruna á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Ítarlega er fjallað um sjúkrahúsið og forstjóra þess, Björn Zoëga, í sænska miðlinum Dagens Nyheter í dag. Karólínska sjúkra­húsið er stærsta sjúkra­húss Svíþjóðar. Þetta er gert til þess að mæta fjölgun alvarlegra veikra sjúklinga með Covid-19. 

Blaðamaður DN fylgdi Birni eftir á sjúkrahúsinu í vikunni en hann tók við stöðu forstjóra þegar sjúkrahúsið var í alvarlegum fjárhagsvanda. Önnur bylgja Covid-19 herjar nú á Svía en alls eru 628 sjúklingar á sjúkrahúsum með Covid þar í landi. Af þeim eru 182 á gjörgæslu.

Í gær var greint frá 66 dauðsföllum til viðbótar frá því á fimmtudag í Svíþjóð og alls eru 6.406 látnir af völdum Covid-19 þar í landi. Talið er að um 208.300 hafi smitast og fjölgaði í gær nýjum smitum um 7.240. 

Frá því Björn tók við stjórnartaumunum á Karólínska hefur í tvígang þurft að segja upp fjölda starfsmanna. Alls starfa 15.200 hjá sjúkrahúsinu og til stendur að fækka þeim enn frekar eða niður í 15.050. Björn segir í viðtalinu að það verði aftur á móti ekki gert fyrr en eftir Covid. .

Ítarlega er rætt við Björn í viðtalinu um stöðu sjúkrahússins á erfiðum niðurskurðartímum en viðtalið er hægt að lesa í heild hér.

mbl.is