Námsmenn einmana í kófinu

Eirik Sandåker er einmana meistaranemi við BI-viðskiptaháskólann í Ósló. Hann …
Eirik Sandåker er einmana meistaranemi við BI-viðskiptaháskólann í Ósló. Hann segir rútínulífið algjört, kennsluna fara fram um fjarfundabúnað og mann vera manns gaman. Margt sé horfið á braut með kennslustundum og spjalli við samnemendur yfir kaffibolla. Ljósmynd/Facebook-síða Eirik Sandåker

Þegar Eirik Sandåker, meistaraprófsnemi í skapandi rekstrarfræðum, eða creative business managament, lokar námsbókunum á kvöldin verður lestrarsalurinn hans að eldhúsinu hans. Þá útbýr Sandåker, sem er nemandi við BI-viðskiptaháskólann í Ósló í Noregi, Handelshøyskolen BI, sér kvöldverð einn, borðar hann einn og horfir á fréttatíma norska ríkisútvarpsins einn.

Sandåker hittir samnemendur sína aldrei þessa önnina, kennslan er fjarkennsla og félagslífið ekkert. Þær athafnir sem krefjast mannlegra samskipta fara fram um fjarfundakerfi á borð við Teams, Zoom, Skype og önnur afsprengi lýðnetsins sem gera fólki kleift að forðast allt samneyti hvert við annað.

Ekkert félagslíf

Sandåker tilheyrir 59 prósentum norskra háskólanema sem segjast í könnun Samtaka norskra námsmanna og norska stúdentamálgagnsins Universitas vera einmana í kórónufaraldrinum árið 2020.

„Margir eiga sér ekkert félagslíf, einkum þeir sem eru nýfluttir til borgarinnar,“ segir Sandåker sem les til meistaraprófs eins og áður segir. Svo sem margir á hans aldursreki þyrstir hann í að líta upp úr bókunum og fara út á lífið. Sýna sig og sjá aðra.

Það er bara ekki hægt eins og er. Í Ósló er allt lokað, líkamsræktarstöðvar, menningarmiðstöðvar og öldurhús. Á annað hundrað kórónuveirusmit greinast í borginni dag hvern og á sjötta hundrað í landinu öllu, 551 bara í gær og á fjórða hundrað eru látnir af völdum Covid-19 síðan í vor.

Allir dagar eins

„Mig langar að sletta aðeins úr klaufunum,“ segir neminn ungi, „allir dagar eru eins og rútínulífið algjört, ekkert krydd í tilveruna. Við höfum ekkert samband við annað fólk, neyðumst til að einangra okkur.“

Könnun Universitas náði til rúmlega eitt þúsund norskra námsmanna. Svöruðu þar 44 prósent því játandi að þeim fyndist þau oftar einmana en í meðalári og 15 prósent kváðust upplifa mun meiri einmanaleika en vaninn væri. Samtals eru því 59 prósent svarenda einmana norskir námsmenn.

„Fólk er farið að átta sig á alvöru málsins, margir telja þetta ástand komið til að vera,“ segir Vibeke Edvardsen Aarflot, félagsráðgjafi við BI-skólann, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK þar sem hún situr á stúdentabarnum við BI-skólann. Ja, eða stúdentakaffihúsinu eins og það er núna á meðan öll áfengissala á veitingahúsum er bönnuð í Ósló.

„Fólk þolir það alveg í einhvern tíma að eiga engin samskipti við samnemendur sína og sitja kennslustundir með fjarfundabúnaði en að lokum rennur alvara málsins upp fyrir manni,“ segir Aarflot en starf hennar snýst meðal annars um að gera nemendum skólans lífið léttara. Þar á meðal félagslega.

Maður er manns gaman

Það er þó hægara sagt en gert þessi dægrin. „Margir eiga erfitt með að finna sér hvatningu þegar lífið fer fram á tölvuskjá. Ekkert félagslíf og ekkert sem hægt er að hlakka til eftir skóla,“ segir félagsráðgjafinn og hefur lög að mæla. Sé mark takandi á athugun NRK er meira en helmingur allra samskipta norskra námsmanna annaðhvort orðinn stafrænn upp á síðkastið eða hreinlega horfinn á braut.

Sandåker meistaranemi kannast við þetta þar sem hann situr í örsmárri leiguíbúð sinni á stúdentagörðum BI-skólans. „Maður þarfnast félagslífsins. Maður er manns gaman, frímínúturnar, kaffibollinn, spjall um eitthvað annað en námið,“ eru lokaorð nemandans áður en hann ánetjar sig lýðnetinu enn einu sinni til að hlusta á fyrirlestur sem hann annars hefði setið í hópi samnemenda sinna og farið svo með þeim í frímínútur og talað um lífið, eitthvað sem heimsbyggðin leit eitt sinn ekki á sem sérstakan lúxus heldur sjálfsagðan hlut.

En enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og fyrir því finna háskólanemar jafnt sem flestir aðrir jarðarbúar kórónuárið 2020.

NRK

Universitas

mbl.is