Twitter læsir aðgangi forsetans

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Samfélagsmiðillinn Twitter hefur læst aðgangi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í 12 klukkustundir hið minnsta.

„Í ljósi fordæmalauss ofbeldis í Washingtonumdæmi höfum við farið fram á það að fjarlægðar verði þrjár færslur @realDonaldTrump á Twitter sem voru skrifaðar fyrr í dag, fyrir endurtekin og alvarleg brot á reglum okkar,“ sagði miðillinn í tilkynningu. 

Fjarlægi forsetinn ekki færslurnar þrjár verður aðgangur hans áfram lokaður. Twitter varaði einnig við því að framtíðarbrot Trumps á reglum miðilsins „munu hafa þær afleiðingar að aðgangi @realDonaldTrump verður lokað til frambúðar“.

ABC og BBC greina frá. 

Fyrr í kvöld fjarlægði miðillinn tvær færslur forsetans, meðal annars myndband af ávarpi hans til þjóðarinnar. Í hinni færslunni, sem var fjarlægð skömmu eftir að hún var birt, virtist forsetinn réttlæta múg sem braust inn í þinghús Bandaríkjaþings fyrr í kvöld. Einn lést í óeirðunum. 

Báðar deild­ir Banda­ríkjaþings voru sam­ankomn­ar í dag til þess að telja at­kvæði kjör­manna og staðfesta þar með niður­stöður for­seta­kosn­ing­anna sem fram fóru í nóv­em­ber þegar múgur­inn braust inn í þing­húsið sem var í kjöl­farið rýmt. Þing­menn vest­an­hafs hafa sakað Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta um að hafa hvatt til of­beld­is­verka á mót­mæla­fundi sem fram fór skömmu áður en brot­ist var inn í þing­húsið.

mbl.is