Danir horfa til íslensku skimunarinnar

Allar verslanir í Danmörku, nema matvöruverslanir og apótek, eru lokaðar …
Allar verslanir í Danmörku, nema matvöruverslanir og apótek, eru lokaðar um þessar mundir. AFP

Danska ríkisstjórnin er nú með til skoðunar að skikka alla ferðamenn, sem koma til landsins, í tíu daga sóttkví. Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra Danmerkur, hefur lýst sig fylgjandi slíkum hugmyndum, en þær eru viðbragð við tillögum Íhaldsflokksins, sem situr í stjórnarandstöðu.

Íhaldsflokkurinn leggur til að sama leið verði farin á dönsku landamærunum og þeim íslensku, tvöföld sýnataka með nokkurra daga millibili. 

Þess er þegar krafist að allir farþegar á leið til Danmerkur framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi, sem ekki er eldra en tveggja sólarhringa, áður en þeir stíga upp í flugvél á leið til landsins. Þær reglur voru innleiddar með litlum fyrirvara fyrir rúmri viku með tilheyrandi vandræðum fyrir Íslendinga sem búsettir eru í Danaveldi og áttu bókað flug út eftir jólafrí á Íslandi.

Góð hugmynd

Danska ríkisútvarpið, DR, tók nokkra farþega á Kastrup tali í dag, þeirra á meðal Önnu Kristinsdóttur, nemanda við Háskólann í Árósum, sem var á heimleið eftir jólafrí á Íslandi.

„Ég tel að það væri góð hugmynd fyrir Dani að notast við sömu reglur og á Íslandi, því ég gæti í raun hafa smitast á leiðinni hingað,“ segir Anna.  Engar kröfur eru í gildi um skimun eða sóttkví við komuna til Danmerkur, en þó er boðið upp á sýnatöku fyrir þá sem vilja á flugvöllum auk þess sem ferðalangar eru eindregið hvattir til að afkvía sjálfa sig.

Anna ætlar sjálf í fjögurra daga sóttkví og síðan í sýnatöku enda vinnur hún með eldra fólki dag hvern.

Nú er hún Snorrabúð stekkur, hefði Jónas Hallgrímsson sagt þyrfti …
Nú er hún Snorrabúð stekkur, hefði Jónas Hallgrímsson sagt þyrfti hann að horfa upp á Strikið í Kaupmannahöfn þessa dagana. AFP

Harðar aðgerðir áfram

Harðar samkomutakmarkanir sem tóku gildi í Danmörku skömmu fyrir jól hafa verið framlengdar til 7. febrúar. Þær hafa nú verið framlengdar í tvígang eftir að hafa upphaflega átt að gilda til 3. janúar og síðar til 17. janúar.

All­ar versl­an­ir nema mat­vöru­versl­an­ir verða áfram lokaðar og sama gild­ir um veit­ingastaði og kaffi­hús, hár­greiðslu­stof­ur, nudd­stof­ur. Þó má selja mat og veit­ing­ar til að taka með heim.

Fjar­kennsla verður í öll­um skól­um, bæði grunn-, fram­halds- og há­skól­um. Kennsla í þeim síðast­nefndu hef­ur að miklu leyti verið á net­inu í all­an vet­ur en það var þó ekki fyrr en stuttu fyr­ir jól sem staðkennsla var al­farið bönnuð. Sumir háskólar í landinu hafa gefið út að námið verði á netinu það sem eftir lifir annar, en aðrir þráast við að útiloka staðkennslu síðar í vor og halda nemendum og kennurum þannig í óvissu.

Tilslakanir ekki í kortunum

Nýjum kórónuveirutilfellum hefur farið snarfækkandi í Danmörku síðustu vikur eftir að hafa toppað vikuna fyrir jól. Ljóst er að hertar aðgerðir hafa borið árangur. Greind tilfelli hafa verið í kringum þúsund á dag síðustu daga, en fóru hæst yfir 4.000 á dag . Nýgengi veirunnar, smit á hverja 100.000 íbúa síðustu tvær vikur, er engu að síður hátt, um 505, eða tífalt á við hér á landi.

Í færslu sem Mette Frederiksen forsætisráðherra setur á Facebook á sunnudag segist hún hugsi yfir ákalli um tilslakanir á aðgerðum. Þrátt fyrir að nýjum smitum fari fækkandi sé ljóst að „breska afbrigði veirunnar“ – sem talið er mun meira smitandi – sæki í sig veðrið auk þess sem bóluefni berist ekki nógu hratt. Því muni taka tíma að ná smittölum niður.

Greinilegt er að tilslakanir eru ekki í kortunum hjá ríkisstjórn Mette Frederiksen.

„Á næstu dögum og vikum mun verða þrýst á ríkisstjórnina að opna landið. Mitt svar er: Við eigum á hættu að missa tökin. Við þurfum að ná smittölum niður. Við þurfum að standa föst á okkar og berjast áfram.“

mbl.is